Fara beint í Meginmál

Mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna

Mat á hæfi
Ábyrgð
Hæfisskilyrði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna
Framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna
Mat fjármálaeftirlitsins á skriflegum gögnum
Munnlegt hæfismat
Niðurstaða hæfismats
Lög, reglur og viðtalsþættir

Mat á hæfi

Rík og málefnaleg sjónarmið, byggð á almannahagsmunum, búa að baki því að framkvæmdastjórar og stjórnir eftirlitsskyldra aðila séu á hverjum tíma skipaðar einstaklingum sem uppfylla hæfisskilyrði laga og reglna settra samkvæmt þeim.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn eftirlitsskyldra aðila skulu uppfylla hæfiskröfur sem tilgreindar eru í sérlöggjöf um starfsemi hvers eftirlitsskylds aðila. Mikil ábyrgð hvílir á herðum þessara aðila og markmið þess að meta hæfi þeirra er að tryggja að hæfir aðilar séu í forsvari fyrir eftirlitsskylda aðila og þar með tryggja trúverðugleika og orðspor fjármálamarkaðarins. Rekstur eftirlitsskyldra aðila getur verið afar flókinn og umfangsmikill og því eru gerðar ríkar kröfur til stjórnenda þeirra að sinna starfi sínu með fullnægjandi hætti.

Eftirlitsskyldir aðilar skulu tryggja að stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og lykilstarfsmenn uppfylli á hverjum tíma þær hæfiskröfur sem gerðar eru til þeirra:

  • Við veitingu starfsleyfis og eftir atvikum við breytingar á þegar veittum starfsleyfum.
  • Breyting á stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra.
  • Viðvarandi mat á hæfi.

Mat á hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna er á ábyrgð eftirlitsskyldra aðila.

Eftirlitsskyldur aðili skal verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi aðilans fyrir stjórnarmanni og framkvæmdastjóra og tryggja að þeir hljóti viðeigandi þjálfun til starfans.

Eftirlitsskyldur aðili skal setja sér stefnu og verklag um mat á hæfi stjórnar, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna.

Upplýsingar um viðurkenningu tryggingastærðfræðinga má finna hér.

Lagagrundvöllur

Markmið hæfisákvæða íslenskra laga er að tryggja að þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir eftirlitsskylda aðila séu til þess hæfir, enda fari þeir með yfirstjórn á fjármálamarkaði.

Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur um framkvæmd hæfismats á hverjum markaði fyrir sig.

Við mat á hæfi lítur fjármálaeftirlitið einnig til viðmiðunarreglna evrópsku eftirlitsstofnananna nr. 2021/06 um mat á hæfi stjórnarmanna (e. Guidelines on the assessment of the suitability of members of the management body and key function holders under CRD IV and MiFID II). Í viðmiðunarreglunum eru settar fram reglur sem útfæra með nánari hætti ákvæði íslenskra laga, m.a. hvernig skal meta samsetningu stjórnarinnar í heild, hagsmunaárekstra og sjálfstæða hugsun stjórnarmanna.

Ábyrgð

Rétt er að geta þess að þrátt fyrir hlutverk fjármálaeftirlitsins í tengslum við mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra er það ávallt á ábyrgð viðkomandi að gæta að hæfi sínu og tryggja að ekki sé ástæða til þess að efast um að þeir uppfylli hæfisskilyrði laga og reglna. Rekstur eftirlitsskyldra aðila getur verið afar flókinn og umfangsmikill og eru því ríkar kröfur gerðar til slíkra fyrirtækja, m.a. hvað varðar rekstur, starfsemi og viðskiptahætti þess. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að óumdeilt sé að þeim sem hefur verið falin ábyrgð á rekstri eftirlitsskylds aðila uppfylli hæfisskilyrði laga og geti valdið starfi sínu með fullnægjandi hætti.

Auk þess skulu eftirlitsskyldir aðilar verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi fyrirtækisins fyrir framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum og tryggja að þeir hljóti viðeigandi þjálfun til starfans.

Hæfisskilyrði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna

Lagt er mat á hæfi einstaklinga út frá þeim hæfiskröfum sem gerðar eru í lögum og eru nánar útfærðar í reglum fjármálaeftirlitsins. Þá er jafnframt litið til viðmiðunarreglna Evrópskra eftirlitsstofnana við túlkun á lögunum. Rétt er að geta þess að lagakröfur eru mismunandi eftir því á hvaða markaði hlutaðeigandi eftirlitsskyldur aðili starfar.

Hæfisskilyrði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila:

Gott orðspor, starfa af heiðarleika og heilindum

  • Óháð tegund og umfangi reksturs eftirlitsskylds aðila.
  • Séu lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, ekki hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur o.fl.

Þekking, hæfni og reynsla

  • Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og lykilstarfsmenn skulu hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu og hafa lokið námi sem nýtist í starfi.
  • Með hliðsjón af tegund og umfangi reksturs eftirlitsskylds aðila og starfsskyldum.

Sjálfstæð hugsun

  • Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera sjálfstæðir í hugsun til þess að geta með skilvirkum hætti metið, gagnrýnt og haft eftirlit með ákvarðanatöku.
  • Mat á hagsmunaárekstrum.

Fullnægjandi tími

  • Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu eftirlitsskyldra aðila.

Samsetning stjórnar

  • Samsetning stjórnar skal vera með þeim hætti að stjórn búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skila þá starfsemi sem viðkomandi aðili stundar, þ.m.t. helstu áhættuþætti.

Gott orðspor, starfa af heiðarleika og heilindum

Lögræði er tvenns konar: sjálfræði og fjárræði. Sjálfræði felur í sér réttinn til að ráða persónulegum högum sínum, öðrum en fjármálum. Fjárræði felur í sér réttinn til að ráða fjármálum sínum. Einstaklingar verða lögráða við 18 ára aldur og felst hæfisskilyrðið því einkum í því að framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður hafi ekki verið sviptur lögræði sökum þess að viðkomandi telst ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé.

Fjárhagslegt sjálfstæði og ekki úrskurður um gjaldþrot á sl. 5 árum.

Við mat á fjárhagslegu sjálfstæði er litið til eftirfarandi atriða:

  • Að eiginfjárstaða sé jákvæð.
  • Að tekjur standi undir afborgunum af skuldum og framfærslu.
  • Að skuldir, ábyrgðir gagnvart þriðja aðila og veðsetning eigna séu ekki þess eðlis að efast megi um óhæði gagnvart lánveitanda/kröfuhafa og það sé líklegt til að hafa áhrif á störf hans. Við mat á því hvort aðili teljist háður öðrum er horft til þess hvort skuldbindingin, með hliðsjón af árstekjum, teljist veruleg. Undanskildar skuldbindingar samkvæmt þessum lið eru hefðbundin lán sem standa almenningi til boða t.d. íbúðalán, bílalán og námslán.
  • Annarra atriða en að framan greinir er varða fjárhagsstöðu eða fjárhagsskuldbindingar og máli geta skipt að mati fjármálaeftirlitsins.

Gott orðspor og ekki hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur á sl. 10 árum.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu hafa gott orðspor og mega ekki hafa hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur á sl. 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um gjaldeyrismál, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

Við mat á góðu orðspori er litið til þess hvort framkvæmdastjórar og stjórnarmenn hafi sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni misnota aðstöðu sína eða skaða eftirlitsskylda aðilann.

Brot á lögum um starfsemi á fjármálamarkaði hafa sérstaka þýðingu við matið, auk þess sem fyrri afskipti fjármálaeftirlitsins eða mat eftirlitsins á fyrri störfum viðkomandi hefur þýðingu við mat á hæfi. Önnur tilvik sem valdið geta skorti á hæfi með vísan til fyrri háttsemi eru t.d. að aðili hafi réttarstöðu sakbornings eða ákæra hefur verið lögð fram á hendur viðkomandi eða eftirlitsskyldan aðila sem hann var í forsvari fyrir eða bar ábyrgð á, vegna meintra brota á lögum sem tilgreind eru í lögum.

Við mat á góðu orðspori skal m.a. hafa hliðsjón af:

  • Öllum vísbendingum um að aðilinn hafi ekki verið samvinnuþýður í samskiptum við lögbær yfirvöld.
  • Synjun eða afturköllun á leyfi til að stunda einhvers konar starfsemi.
  • Ástæðum vegna uppsagna úr störfum.
  • Ef lögbær yfirvöld hafa metið aðilann vanhæfan til að gegna starfi stjórnarmanns.
  • Öllum öðrum atriðum, svo sem alvarlegar ásakanir sem byggja á viðeigandi og áreiðanlegum upplýsingum, sem benda til þess að aðilinn hegði sér ekki í samræmi við það sem telja má eðlilegt.

Fullnægjandi þekking, hæfni og reynsla

Liður í hæfismati stjórnarmanna og framkvæmdastjóra er að meta hæfi aðila með vísan til þekkingar, hæfni og reynslu. Stjórnarmenn skulu búa yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að sinna skyldum sínum á tilhlýðilegan hátt og m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili stundar, þ.m.t. áhættuþáttum.

Í þessu hæfisskilyrði felst sjálfstætt hæfisskilyrði sem stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra ber að fullnægja. Með námi sem nýtist í starfi er átt við að aðili hafi aflað sér fræðilegrar þekkingar sem tengist starfsemi, uppbyggingu eða rekstri fyrirtækja. Við mat á nægilegri reynslu og þekkingu er jafnframt höfð hliðsjón af tegund og umfangi reksturs þess eftirlitsskylda aðila sem um ræðir.

Um er að ræða matskennt hæfisskilyrði og eðli máls samkvæmt er ekki unnt að setja fram almenn viðmið um það hvaða þekking eða reynsla er þörf, heldur þarf að meta slíkt hverju sinni með hliðsjón af tegund eftirlitsskylds aðila og umfangi starfseminnar. Af þeim sökum er mikilvægt að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn rökstyðji með fullnægjandi hætti í skriflegri upplýsingagjöf hvernig þeir telja að sín menntun og starfsreynsla heimfærist yfir á stjórnarsetu í þeim eftirlitsskylda aðila þar sem þeir sitja í stjórn.

Ef stjórnarmaður uppfyllir ekki að mati fjármálaeftirlitsins skilyrði um þekkingu, hæfni og reynslu er hann boðaður til munnlegs hæfismats.

Á grundvelli framangreinds hæfisskilyrðis lýtur fjármálaeftirlitið m.a. til eftirfarandi atriða við mat á nægilegri þekkingu, hæfni og reynslu:

  • Háskólapróf á sviði fjármála, hagfræði, verkfræði, lögfræði og viðskiptafræði er almennt talið fullnægja menntunarskilyrði laganna. Aðrar prófgráður líkt og diplóma nám eða styttri námsleiðir í framangreindum fræðigreinum eða háskólapróf í öðrum fræðigreinum eru almennt ekki talið fullnægja menntunarskilyrðum. Þá þarf aðili að hafa lokið umræddu háskólaprófi svo kröfunum sé fullnægt og því ekki nægjanlegt að aðili stundi nám í umræddum fræðigreinum.
  • Starfsreynsla eða stjórnarseta sem leiðir af sér þekkingu aðila á starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila eða á starfsemi eftirlitsskylds aðila með sambærilegar starfsheimildir telst almennt fullnægja framangreindum skilyrðum um nægilega þekkingu og starfsreynslu.
  • Stjórnunarstarf eða stjórnarseta aðila hjá öðrum eftirlitsskyldum aðila eða almennu fyrirtæki, reynsla af eigin fjárfestingum á fjármálamarkaði eða af eigin atvinnurekstri getur talist nægjanlegt til þess að aðili teljist fullnægja skilyrðum laganna. Félagsstörf og þátttaka í stjórnmálum hafa að jafnaði lítið vægi.
  • Í mati fjármálaeftirlitsins á þekkingu og starfsreynslu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila geta tiltekin atriði verið til veikingar eða styrkingar framangreindum hæfisþáttum. Þau eru m.a. stærð þess fyrirtækis sem starfsreynsla eða stjórnarseta aðila byggir á, tímalengd í því starfi eða í stjórn, hvort viðkomandi sat sem aðalmaður eða varamaður í stjórn þess fyrirtækis og í hverju starf hans fólst, t.d. hvort það krafðist stjórnunarlegrar þekkingar.
  • Jafnframt má ráða að mismiklar kröfur eru gerðar til starfsreynslu og hæfis aðila eftir tegund og umfangi reksturs þess eftirlitsskylda aðila sem viðkomandi gegnir framkvæmdastjórastarfi hjá eða situr í stjórn í.
  • Stjórnarmenn eiga að hafa skýran skilning á stjórnskipulagi eftirlitsskylds aðila, hlutverki þeirra innan eftirlitsskylds aðila og hugsanlegum hagsmunaárekstrum sem geta skapast ef um er að ræða samstæðu. Þá eiga stjórnarmenn að leggja sitt af mörkum til að viðhalda viðeigandi menningu innan stjórnarinnar, sem og stofnunarinnar í heild.
  • Þá skal taka mið af reynslu sem tengist fjármálamarkaði, löggjöf og öðru regluverki á fjármálamarkaði, reynslu af stefnumótun, áhættustýringu, bókhaldi, endurskoðun og reikningshaldi.

Sjálfstæð hugsun

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu starfa af heiðarleika, heilindum og fagmennsku. Stjórnarmenn skulu vera sjálfstæðir í hugsun þannig að þeir geti með skilvirkum hætti metið, gagnrýnt og haft eftirlit með ákvarðanatöku framkvæmdastjóra.

Að vera sjálfstæður í hugsun í störfum sínum felur í sér að taka virkan þátt í störfum innan stjórnarinnar og vera fær um að taka sjálfstæðar, málefnalegar og óhlutdrægar ákvarðanir.

Önnur störf stjórnarmanna

Stjórnarmenn eftirlitsskyldra aðila mega hvorki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða í nánum tengslum við hann. Þá mega stjórnarmenn einungis sinna þeim lögmannsstörfum fyrir annað fjármálafyrirtæki sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á fjármálamarkaði.

Náin tengsl teljast vera til staðar þegar einstaklingar og/eða félög tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:

  • með hlutdeild í formi beins eignarréttar eða yfirráðum sem nemur 20% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðavægi félags,
  • með yfirráðum, eða
  • með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.

Við mat á hagsmunaárekstrum er m.a. litið til eignarhalds aðila og tengsla félagsins við aðra aðila á fjármálamarkaði og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur eftirlitsskylda aðilans. Þá er við matið litið til þess hvort fyrirtækin hafi sömu starfsheimildir en hætta á hagsmunaárekstrum getur skapast ef þau teljast í samkeppni.

Fullnægjandi tími í störf sín í þágu eftirlitsskylds aðila

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu eftirlitsskylds aðila.

Eftirlitsskyldur aðili á að meta hvort stjórnarmaður hafi fullnægjandi tíma til þess að sinna störfum sínum, þ.m.t. til að skilja starfsemi stofnunarinnar og helstu áhættuþætti. Við mat á því hvort stjórnarmaður hafi fullnægjandi tíma til þess að sinna störfum sínum skal taka mið af eftirfarandi:

  • Öðrum stjórnarsetum stjórnarmannsins, að teknu tilliti til stjórna innan sömu samstæðu.
  • Stærð, eðli og umfang starfsemi annarra fyrirtækja þar sem stjórnarmaðurinn situr í stjórn.
  • Staðsetningu og ferðatíma sem þarf til að sinna starfinu.
  • Fjölda stjórnarfunda.
  • Stjórnarsetu í samtökum.
  • Öllum fundum með t.d. lögbærum yfirvöldum og hagsmunaaðilum.
  • Eðli og umfang annarra starfa stjórnarmannsins.
  • Öðrum störfum stjórnarmannsins.
  • Tíma sem fer í þjálfun stjórnarmanna.
  • Allar aðrar skuldbindingar sem eftirlitsskyldum aðilum finnst vert að taka mið af, við mat á fullnægjandi tíma.

Samsetning stjórnar

Stjórn og framkvæmdastjóri eftirlitsskylds aðila skulu búa yfir fjölbreyttri reynslu og sameiginlega búa yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili stundar, þ.m.t. helstu áhættuþætti. Þá skulu eftirlitsskyldir aðilar jafnframt setja sér stefnu um hvernig það hyggst stuðla að því að einstaklingar með fjölbreytta reynslu gegni störfum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

Framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna

Hlutverk fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands

Hlutverk fjármálaeftirlitsins er að sinna eftirliti með því að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn uppfylli hæfisskilyrði laga og reglna. Þá hefur Seðlabankinn heimildir til þess að beita viðurlögum komi í ljós að ákvæðum laga eða reglna á grundvelli þeirra sé ekki framfylgt. Hlutverk fjármálaeftirlitsins er ekki að staðfesta hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna en það er á ábyrgð eftirlitsskyldra aðila að tryggja að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn uppfylli hæfisskilyrði.

Nýr framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður tilkynntur til fjármálaeftirlitsins

Eftirlitsskyldum aðilum ber að tilkynna fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn eða ráðningu nýs framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns innan tveggja daga frá skipun. Í kjölfarið berst þeim einstaklingi tilkynning og tölvupóstur með beiðni um að svara spurningalista fjármálaeftirlitsins, þar sem óskað er eftir ýmsum gögnum um viðkomandi einstakling sem nauðsynleg eru til að leggja mat á hæfi hans. Framkvæmdastjórinn eða stjórnarmaðurinn hefur fjórar vikur til þess að svara spurningalistanum. Tilkynningu eftirlitsskylds aðila um skipan og síðari breytingar á framkvæmdastjóra eða stjórnarmanni skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum laga og reglna sem gilda um viðkomandi eftirlitsskyldan aðila, sé fullnægt. Í því felst að eftirlitsskyldur aðili skal rökstyðja mat á hæfi viðkomandi aðila, með hliðsjón af þeim lögum og reglum/viðmiðum sem gilda, auk upplýsinga um hvenær matið fór fram.

Upplýsingagjöf framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns

Í spurningalista fjármálaeftirlitsins sem berst framkvæmdastjóra eða stjórnarmanni eru spurningar tengdar hæfisskilyrðum laganna, t.d. almennar upplýsingar um framkvæmdastjórann eða stjórnarmanninn, fjárhagslegt sjálfstæði, menntun, starfsreynslu, stjórnarsetur, hagsmunaárekstra o.fl. Mikilvægt er að framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður geri ítarlega grein fyrir svörum sínum í spurningalistanum.

Mat fjármálaeftirlitsins á skriflegum gögnum

Mat á hæfi felst annars vegar í yfirferð yfir skrifleg gögn og hins vegar munnlegu hæfismati þegar það á við. Yfirferð yfir skrifleg gögn felst í athugun á því hvort aðili uppfylli m.a. skilyrði laga um búsetu, lögræði, gott orðspor, að hafa ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota, að hafa ekki á síðustu 10 árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur, fjárhagslegt sjálfstæði, þekkingu, hæfni og reynslu, þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili stundar, þ.m.t. áhættuþáttum, og að ekki séu til staðar þær aðstæður sem kveðið er á um í löggjöf um hagsmunaárekstra á fjármálamarkaði.

Munnlegt hæfismat

Framkvæmdastjóri

Boðun í munnlegt hæfismat er með öðrum hætti þegar um er að ræða framkvæmdastjóra heldur en stjórnarmenn. Allir framkvæmdastjórar skulu undirgangast hæfismat. Munnlegu hæfismati er ætlað að kanna hvort framkvæmdastjóri búi yfir nægilegri þekkingu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Í munnlegu hæfismati er m.a. könnuð þekking aðila á þeirri starfsemi sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili stundar, þekking á lögum og reglum á fjármálamarkaði, reikningsskilum, endurskoðun og almennum viðskiptalegum og stjórnunarlegum þáttum.

Til hæfismats er boðað skriflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og tilgreint er hvaða efni verður til umræðu. Þá verður boðuðu hæfismati ekki frestað nema sýnt sé fram á að ríkar ástæður liggi fyrir og almennt ekki lengur en um eina viku. Munnlegt hæfismat fer fram í húsakynnum Seðlabanka Íslands og er að jafnaði fjórar klukkustundir.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort framkvæmdastjóri hafi í munnlegu hæfismati sýnt fram á nægilega þekkingu til að geta gengt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Þá tilkynnir fjármálaeftirlitið framkvæmdastjóra og stjórn viðkomandi eftirlitsskylds aðila skriflega um niðurstöðu hæfismats.

Stjórnarmenn

Fjármálaeftirlitið metur hvort stjórnarmenn skuli undirgangast munnlegt hæfismat. Við matið er m.a. horft til tegundar, stærðar og umfangs reksturs eftirlitsskylda aðilans og þess hvort vafi sé á að viðkomandi uppfylli skilyrði laga um fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Fjármálaeftirlitið tekur ákvörðun um hæfi stjórnarmanns að loknu munnlegu hæfismati.

Í munnlegu hæfismati er m.a. könnuð þekking stjórnarmanns á þeirri starfsemi sem viðkomandi eftirlitsskyldur aðili stundar, þekking á lögum og reglum á fjármálamarkaði, reikningsskilum, endurskoðun og almennum viðskiptalegum og stjórnunarlegum þáttum.

Ef um er að ræða eftirlitsskyldan aðila sem veita á starfsleyfi eru stjórnarmenn boðaðir í munnlegt hæfismat ef uppi er vafi um hæfi og hæfni þeirra samkvæmt lögum og reglum, ólíkt framkvæmdastjórum sem eru ávallt boðaðir í munnlegt hæfismat. Reglur fjármálaeftirlitsins um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna, lýsa ferlinu við mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra auk þess að setja viðmið um matið.

Til hæfismats er boðað skriflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og tilgreint hvaða efni verður til umræðu. Þá verður boðuðu hæfismati ekki frestað nema sýnt sé fram á að ríkar ástæður liggi fyrir og almennt ekki lengur en um eina viku. Munnlegt hæfismat fer fram hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og getur hæfismatið staðið í allt að fjórar klukkustundir.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort stjórnarmaður hafi í munnlegu hæfismati sýnt fram á nægilega þekkingu til að geta gengt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Þá tilkynnir fjármálaeftirlitið stjórnarmanni og stjórn viðkomandi eftirlitsskylds aðila skriflega um niðurstöðu hæfismats.

Endurtekið munnlegt hæfismat

Reynist árangur ófullnægjandi í munnlegu hæfismati er aðilum gefinn kostur á að endurtaka viðtalið innan fjögurra vikna frá því að niðurstaðan liggur fyrir. Hæfismat verður einungis endurtekið einu sinni, nema sérstök rök leiði til annars.

Þegar fjármálaeftirlitið metur svo að framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður hafi ekki sýnt fram á fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu í munnlegu hæfismati er hann boðaður skriflega í endurtekið munnlegt hæfismat. Í endurteknu mati gefst framkvæmdastjóra eða stjórnarmanni tækifæri til þess að svara þeim spurningum sem honum tókst ekki að sýna fullnægjandi þekkingu á í fyrra hæfismati.

Ráðgjafanefnd fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands

Í tilviki viðskiptabankanna, þriggja stærstu vátryggingafélaganna og þriggja stærstu lífeyrissjóðanna hefur fjármálaeftirlitið metið sem svo að allir stjórnarmenn undirgangist munnlegt hæfismat, óháð því hvort stjórnarmenn uppfylli öll hæfisskilyrði. Grundvallast það á tegund starfsleyfis, umfangi rekstrarins og kerfislegs mikilvægis viðkomandi eftirlitsskylds aðila. Í málum sem þessum óskar fjármálaeftirlitið eftir umsögn ráðgjafanefndar um hæfi og hæfni stjórnarmanna.

Niðurstaða hæfismats

Skilyrði um hæfi og hæfni uppfyllt

Í þeim tilvikum þar sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður er talinn uppfylla hæfisskilyrði sendir fjármálaeftirlitið framkvæmdastjóranum eða stjórnarmanninum bréf þar sem fram kemur að stofnunin geri ekki athugasemdir við hæfi hans. Þá er tekið fram að fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjórans eða stjórnarmannsins til sérstakrar skoðunar, og er því ekki um að ræða að viðkomandi sé sjálfkrafa hæfur til þess að sinna starfi framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns annarra eftirlitsskyldra aðila framan af. Rétt er að geta þess að þrátt fyrir hlutverk fjármálaeftirlitsins í tengslum við mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna, er það á ábyrgð eftirlitsskylda aðilans að gæta að hæfi þessara aðila og tryggja að ekki sé ástæða til að efast um að þeir uppfylli hæfisskilyrði laga og reglna.

Í þeim tilvikum þar sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður virðist ekki uppfylla hæfisskilyrði laga og reglna eftir endurtekið hæfismat, hefst ferli þar sem framkvæmdastjóranum eða stjórnarmanninum er tilkynnt að hann uppfylli ekki, að mati fjármálaeftirlitsins, skilyrði um hæfi og hæfni.

Skilyrði um hæfi og hæfni ekki uppfyllt

Telji fjármálaeftirlitið að aðili uppfylli ekki hæfisskilyrði laga og reglna eða ef ekki er unnt að leggja mat á hæfi aðila, tilkynnir fjármálaeftirlitið aðilanum og stjórn eftirlitsskylds aðila skriflega um niðurstöðu sína ásamt rökstuðningi.

Í þeim tilvikum þar sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður virðist ekki uppfylla hæfisskilyrði laga og reglna eftir endurtekið hæfismat, er viðkomandi sent bréf og boðið að koma á framfæri sjónarmiðum eða andmælum sínum, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Að fengnum andmælum viðkomandi tekur fjármálaeftirlitið ákvörðun um hæfi aðilans. Þá er stjórnarformaður eftirlitsskylda aðilans upplýstur um framgang málsins.

Framkvæmdastjóri sem er ekki talinn hæfur er óheimilt að sinna starfi framkvæmdastjóra. Þá er stjórnarmanni sem er ekki talinn hæfur óheimilt að taka sæti í stjórn eftirlitsskylds aðila. Hafi aðili þegar hafið störf getur fjármálaeftirlitið krafist þess að framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður láti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Ef kröfum fjármálaeftirlitsins er ekki sinnt innan hæfilegra tímamarka getur stofnunin einhliða vikið aðila frá störfum á grundvelli 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þá tekur fjármálaeftirlitsnefnd ákvörðun um frávikningu ef þær aðstæður eru uppi að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri uppfyllir ekki hæfisskilyrði vegna brotlegrar háttsemi, sbr. g. lið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands.

Lög, reglur og viðtalsþættir

Hér að neðan eru upplýsingar um lög, reglur, viðmiðunarreglur og fleira sem tengjast mati á hæfi og hæfni framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila.