Fara beint í Meginmál

Sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar

Um áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum fer samkvæmt 77. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. b laganna kemur meðal annars fram að fjármálafyrirtæki skuli starfrækja áhættustýringu í einingu sem er óháð öðrum starfseiningum þess, ef það á við, að teknu tilliti til stærðar, eðlis og umfangs rekstrar fyrirtækisins, og þess hversu margþætt starfsemi þess er. Nánar er fjallað um störf áhættustýringar í viðmiðunarreglum EBA um innri stjómarhætti fjármálafyrirtækja.

Í 3. mgr. 77. gr. b laganna er fjallað um yfirmann áhættustýringar. Þar kemur meðal annars fram framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis ráði yfirmann áhættustýringar.

Samkvæmt 5. mgr. 77. gr. b laganna getur fjármálaeftirlitið, ef starfsemi fjármálafyrirtækis réttlætir ekki sérstakt stöðugildi yfirmanns áhættustýringar heimilað að annar háttsettur starfsmaður hafi umsjón með áhættustýringu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, að því tilskildu að engir hagsmunaárekstrar séu til staðar. Við slíkt mat skuli fjármálaeftirlitið hafa hliðsjón af eðli og umfangi starfsemi fyrirtækisins og því hversu margþætt hún er.

Upplýsingagjöf vegna umsóknar um undanþágu frá sérstöku stöðugildi yfirmanns áhættustýringar má finna í eyðublaðaleit vefsins.

Áhættunefnd

Um áhættunefnd hjá fjármálafyrirtækjum fer samkvæmt 78. gr. laga um fjármálafyrirtæki.  Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laganna skal fjármálafyrirtæki starfrækja áhættunefnd. Nefndin skal að lágmarki skipuð þremur mönnum og skulu nefndarmenn vera stjórnarmenn í hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki og búa yfir nægilegri þekkingu og hæfni til að skilja að fullu og hafa eftirlit með áhættustefnu og áhættuvilja fyrirtækisins. Nánar er fjallað um störf áhættunefndar, sem og endurskoðunarnefndar, í viðmiðunarreglum EBA um innri stjómarhætti fjármálafyrirtækja.

Fjármálaeftirlitið getur veitt tvenns konar undanþágur í tengslum við starfrækslu áhættunefndar.

Annars vegar getur fjármálaeftirlitið, með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, veitt undanþágu frá starfrækslu áhættunefndar eða frá einstökum þáttum í starfsemi hennar. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að skilyrða slíka undanþágu til fjármálafyrirtækja. Við slíka undanþágu skulu starfsskyldur áhættunefndar að breyttu breytanda hvíla á stjórn hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, sbr. 5. mgr. 78. gr. laganna.

Upplýsingagjöf vegna umsóknar um undanþágu frá starfrækslu áhættunefndar má finna í eyðublaðaleit vefsins.

Hins vegar getur fjármálaeftirlitið, með hliðsjón af stærð, eðli og umfangi rekstrar fjármálafyrirtækis, og því hversu margþætt starfsemi fyrirtækisins er, heimilað fjármálafyrirtæki að sameina störf áhættunefndar og endurskoðunarnefndar, sbr. IX. kafla A í lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Nefndarmenn sameinaðrar nefndar skulu búa yfir nægilegri þekkingu og hæfni til að sinna verkefnum sem annars hefðu verið falin hvorri nefnd fyrir sig, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Undanþága frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar

Fjallað er um undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar [hér] (setja inn þegar hin er til)