Meginmál

Um starfsemi fjármálafyrirtækja fer samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.[1] Hlutverk Seðlabanka Íslands er meðal annars að hafa framsýnt og áhættumiðað eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja, einkum með greiningu á viðskiptalíkönum þeirra, mati á stjórnarháttum og innra eftirliti og mati á helstu áhættuþáttum sem felast í starfseminni. Annars vegar er lagt mat á áhættuþætti sem geta haft áhrif á eigið fé hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, t.d. útlána-, mótaðila- og samþjöppunaráhættu, markaðsáhættu og rekstraráhættu, og hins vegar áhættuþætti sem geta haft áhrif á laust fé og fjármögnun, eða lausafjár- og fjármögnunaráhættu. Nánar er fjallað um framkvæmd eftirlitsins í Almennum viðmiðum og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum. Með eftirliti sínu stuðlar Seðlabankinn að fjárhagslegu heilbrigði fjármálafyrirtækja, eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum hjá þeim og viðvarandi aðgengi heimila og fyrirtækja að traustri og öruggri fjármálaþjónustu. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Löggjöf um varfærniskröfur og eftirlit með fjármálafyrirtækjum er í grundvallaratriðum hin sama í öllum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Með lögum um fjármálafyrirtæki er innleidd tilskipun 2013/36/ESB, um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum (CRD IV), og reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki (CRR). Tilskipunin og reglugerðin mynda hryggjarstykkið í löggjöf Evrópusambandsins (ESB) um varfærniskröfur og eftirlit með fjármálafyrirtækjum.

Með gerðunum var leitast við að bæta úr vanköntum á lagaumgjörð lánastofnana sem alþjóðlega fjármálakreppan sem hófst 2007–2008 leiddi í ljós og innleiða í Evrópurétt alþjóðleg viðmið um varfærniskröfur til banka, svonefndan Basel III-staðal, sem gefinn er út af Basel-nefndinni um bankaeftirlit. Gerðunum er ætlað að treysta fjármálastöðugleika, einkum með auknum kröfum um magn og gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja til að gera þau betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika. Síðan þá hefur ESB samþykkt nokkrar breytingar á gerðunum. Veigamestar breytingar voru gerðar með tilskipun (ESB) 2019/878 (CRD V) og reglugerð (ESB) 2019/876 (CRR II). Lokið var við innleiðingu þessara gerða í íslenskan rétt með breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og öðrum lögum í júní 2022.

Í maí 2024 samþykkti ESB tvær veigamiklar gerðir sem breyta CRD IV og CRR, eða svonefndan bankapakka ESB 2021. Bankapakkinn samanstendur annars vegar af tilskipun (ESB) 2024/1619 (CRD VI) og hins vegar reglugerð (ESB) 2024/1623 (CRR III). Með bankapakkanum er ætlað að ljúka við innleiðingu á atriðum í áðurnefndum Basel III-staðli sem út af stóðu, einkum varðandi eiginfjárkröfur til að mæta útlána-, markaðs- og rekstraráhættu. Einnig eru þó gerðar breytingar sem leiða ekki af Basel III-staðlinum, svo sem varðandi hæfi lykilstarfsmanna, útibú frá ríkjum utan EES og áhættu í tengslum við umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Unnið er að innleiðingu gerðanna í íslenskan rétt.


[1] Um stofnun verðbréfafyrirtækja og fjárfestingarþjónustu og -starfsemi hjá fjármálafyrirtækjum fer samkvæmt lögum nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga. Löggjöf um varfærniskröfur og eftirlit með verðbréfafyrirtækjum mun taka talsverðum breytingum með innleiðingu reglugerðar (ESB) 2019/2033 (IFR) og tilskipunar (ESB) 2019/2034 (IFD) í íslenskan rétt.