8. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Efnisorð: AML, CTF
Í 8. gr. laga nr. 140/2018 segir að tilkynningarskyldir aðilar skuli framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum í ákveðnum tilvikum m.a. við upphaf samningssambands. Í 24. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna er samningssamband skilgreint sem viðskiptasamband tilkynningarskylds aðila við viðskiptamann sem er til komið vegna viðskipta viðskiptamanns við tilkynningarskyldan aðila og sem gert er ráð fyrir, á þeim tíma sem viðskiptasambandi er komið á, að vari um ákveðinn tíma. Að öðru leyti veita lögin ekki frekari leiðbeiningar um hver teljist viðskiptamaður í skilningi laganna.
Í grein 16.13 í viðmiðunarreglum EBA um áhættuþætti segir að það hvernig aðili kemur til viðskipta við sjóð ráði því hvernig rekstraraðilar eða rekstrarfélög skuli uppfylla skyldu sína til að framkvæma áreiðanleikakönnun. Í grein 16.14 eru tiltekin nokkur dæmi um hvernig aðili kemur í viðskipti við sjóð. Sérstaklega er vakin athygli á c- og d-lið greinarinnar sem fjallar annars vegar um það tilvik þegar hlutdeildarskírteini er skráð á nafn fjárfestis, og hins vegar þegar hlutdeildarskírteini er skráð á nafn fjármálafyrirtækis (t.d. í gegnum safnreikning) en verið er að fjárfesta fyrir hönd annars aðila (endanlegs fjárfestis).
Í þeim tilvikum sem aðili fjárfestir í sjóði í eigin nafni, óháð því hvort hann fjárfestir fyrir milligöngu annars tilkynningarskylds aðila eða án milligöngu, myndi sá aðili sem skráður er fyrir hlutdeildarskírteininu teljast viðskiptamaður rekstraraðila sérhæfðs sjóðs í skilningi 8. gr. laga nr. 140/2018, sbr. a- og d-liður greinar 16.14. í viðmiðunarreglum EBA. Í þeim tilvikum þegar fjárfest er fyrir milligöngu annars tilkynningarskylds aðila, en aðili fjárfestir í sjóði í eigin nafni, hvílir bæði skylda á milligönguaðilanum í viðskiptunum og á rekstraraðila sérhæfða sjóðsins til að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðkomandi fjárfesti í skilningi laga nr. 140/2018, sbr. einnig grein 16.21 í viðmiðunarreglunum.
Í þeim tilvikum sem fjármálafyrirtæki fjárfestir í sjóði, fyrir hönd fjárfestis, en í nafni fjármálafyrirtækis (t.d. í gegnum safnreikning sem skráður er á nafn fjármálafyrirtækis) telst fjárfestirinn að mati fjármálaeftirlitsins ekki viðskiptamaður rekstraraðila eða rekstrarfélags, heldur fjármálafyrirtækið, sbr. c-liður greinar 16.14 í viðmiðunarreglum EBA. Ber rekstraraðilanum í þeim tilvikum að framkvæma áreiðanleikakönnun á fjármálafyrirtækinu í samræmi við lög nr. 140/2018, sbr. einnig grein 16.20 í viðmiðunarreglunum.
Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 45/2020 ber rekstraraðilum sérhæfðra sjóða að halda skrá yfir hlutdeildarskírteinishafa í sjóðum og í þeirri skrá skulu m.a. koma fram nöfn og kennitölur eigenda. Upplýsingar um endanlega fjárfesta í sjóði ættu því að vera veittar á grundvelli framangreindrar skyldu fjármálafyrirtækja til þess að veita rekstraraðila upplýsingar um nöfn og kennitölur raunverulegra eigenda eða endanlegra fjárfesta í sjóðum.
Dagsetning: 2. október 2024
10. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Efnisorð: AML, CTF
Lög nr. 140/2018 gera kröfu um að þeir aðilar sem koma fram fyrir hönd viðskiptamanns gagnvart tilkynningarskyldum aðila sanni á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna. Ekki er gerð sérstök krafa um að aðrir fyrirsvarsmenn en þeir sem komi fram fyrir hönd viðskiptamanns sanni á sér deili.
Dagsetning: 2. október 2024
Efnisorð: AML, CTF
Viðurkennd persónuskilríki eru í lögum nr. 140/2018 skilgreind sem gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum. Til gildra persónuskilríkja teljast m.a. vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á fullgildum undirskriftarbúnaði.
Rafræn skilríki teljast því vera viðurkennd persónuskilríki í skilningi laga nr. 140/2018.
Dagsetning: 2. október 2024
Efnisorð: AML, CTF
Ekki er hægt að gera undantekningu á kröfum skv. 1. mgr. 10. gr., þ.m.t. b-lið ákvæðisins, í þeim tilvikum sem áhættumat sýnir fram á litla áhættu. Þó er heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laganna hafi áhættumat sýnt fram á litla áhættu. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun sem fjallar um einfaldaða áreiðanleikakönnun kemur á hinn bóginn skýrt fram að ekki er hægt að gera undantekningu á kröfum samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna.
Um er að ræða kröfu sem byggir á 13. gr. fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar 2015/849/EB, þó svo að 1. mgr. 10. gr. geri að vissu leyti strangari kröfur en leiðir af tilskipuninni. Hér er um að ræða ófrávíkjanlega lagakröfu samkvæmt íslenskum lögum.
Dagsetning: 2. október 2024
Efnisorð: AML, CTF
Í b-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 140/2018 kemur fram að lögaðilar eigi að sanna á sér deili með upplýsingum úr opinberri skrá og sýna fram á að þeir hafi heimild til að koma fram fyrir hönd viðskipamanns. Fjármálaeftirlitið hefur túlkað 10. gr. laga nr. 140/2018, sem fjallar um áreiðanleikakönnun, á þann veg að í raun sé um tvíþætta kröfu að ræða; annarsvegar að viðskiptamönnum beri að sanna á sér deili og veita tilkynningarskyldum aðilum tilteknar upplýsingar sem kveðið er á um í 10. gr. og hins vegar að tilkynningarskyldir aðilar þurfi svo í kjölfarið að staðreyna upplýsingarnar sem að viðskiptamaðurinn veitir t.d. með upplýsingum úr opinberri skrá.
Meginreglan er því að viðskiptamaður veiti tilkynningarskyldum aðilum upplýsingar og tilkynningarskyldum aðilanum beri í kjölfarið að bera þær saman við opinber gögn til að staðfesta að um réttar upplýsingar sé að ræða. Þetta kemur aftur á móti ekki í veg fyrir að tilkynningarskyldur aðili geti aflað tiltekinna upplýsinga fyrir hönd viðskiptamanns, s.s. um nafn, heimilisfang og stjórnarmenn (í tilviki lögaðila) en þá er mikilvægt að hann sé látinn staðfesta að upplýsingar sem liggi fyrir séu réttar og að tilkynningarskyldur aðili hafi einnig opinber gögn til að styðjast við til að sannreyna að um réttar upplýsingar sé að ræða svo að áreiðanleikakönnun nái markmiði sínu.
Dagsetning: 2. október 2024
Efnisorð: AML, CTF
Markmið laga nr. 140/2018 er m.a. að greina og þekkja deili á þeim einstaklingum sem hafa prókúru eða öðrum þeim sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart fjármálafyrirtæki. Í 10. gr. laga nr. 140/2018 segir: að „þeir sem koma fram fyrir hönd viðskiptamanns gagnvart tilkynningarskyldum aðila skulu sýna fram á að þeir hafi til þess heimild og sanna á sér deili skv. a-lið.” Í íslenskri löggjöf hefur verið farin sú leið að gera kröfu um að aðilar sanni á sér deili með viðurkenndum persónuskilríkjum og því er ekki mögulegt að heimila undanþágu frá þeirri kröfu í einstökum tilvikum. Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 10. gr. og til þess að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta má fresta því að sannreyna upplýsingar skv. 1. mgr. 10. gr. þar til samningssamband hefur stofnast í þeim tilvikum þar sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, sbr. 11. gr. laganna. Í slíkum tilvikum skulu upplýsingar skv. 1. mgr. 10. gr. sannreyndar eins fljótt og því verður komið við.
Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að stofna til samningssambands við viðskiptamann þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt að því tilskildu að tryggt sé að viðskiptamaðurinn geti ekki framkvæmt viðskipti fyrr en áreiðanleikakönnun skv. 10. gr. hefur farið fram, að teknu tilliti til áhættumats tilkynningarskylds aðila og reglugerðar um áreiðanleikakönnun skv. 56. gr.
Dagsetning: 2. október 2024
13. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Efnisorð: AML, CTF
Lögin gera kröfu um að tilkynningarskyldir aðilar beiti aukinni áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða viðskipti við aðila sem tengjast áhættusömu eða ósamvinnuþýðríki. Tilkynningarskyldir aðilar þurfa að beita áhættumiðaðri nálgun og meta þá áhættu sem tengist samningssambandinu og viðskiptunum og ákveða til hversu mikilla ráðstafana þarf að grípa, t.d. hvort kalli þurfi eftir skýringum á greiðslum. Í því getur falist að gera þurfi kröfu um að aukin áreiðanleikakönnun sé framkvæmd áður en greiðslu er skilað til móttakanda en í öðrum tilvikum, getur það verið mat tilkynningarskylda aðilans að það sé ekki þörf á því.
Dagsetning: 2. október 2024
17. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Efnisorð: AML, CTF
Viðeigandi ráðstafanir eru mismunandi eftir því hver áhættan er metin af samningssambandinu hverju sinni. Þetta mat á að vera heildstætt og snúa að öllum þáttum samningssambandsins. Í samræmi við 5. gr. laga nr. 140/2018 skal áhættumat félagsins m.a. vera grundvöllur áreiðanleikakönnunar og reglubundins eftirlits. Í samræmi við það þurfa aðgerðirnar að vera sniðnar að þeirri áhættu sem taldar eru stafa af samningssambandinu. Í áhættumati félagsins er rétt að gera grein fyrir þeim áhættuþáttum sem snúa að væntum viðskiptamönnum og þá einnig að áhætta sem tengist stjórnmálalegum tengslum (e. politically exposed person) viðkomandi er mismikil og kallar á mismunandi umfang þeirra aðgerða sem koma fram í 17. gr. laga nr. 140/2018.
Í greinargerðinni með lögunum segir um 17. gr. laganna: „Ráðstafanir samkvæmt ákvæðinu fara eftir því hversu mikil áhætta tengist stjórnmálalegum tengslum viðkomandi og skulu þær vera fullnægjandi og viðeigandi og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.“ Þetta snýst fyrst og fremst um að taka upplýsta afstöðu út frá þeirri áhættu sem talin er stafa af samningssambandinu hverju sinni. Ef um væri að ræða aðila í áhættuflokki vegna stjórnmálalegra tengsla frá öðru ríki, jafnvel áhættusömu ríki, væri eðlilegt að gera meiri kröfur. Aðgerðir sem lúta að einstaklingum með stjórnmálaleg tengsl geta í raun ekki verið staðlaðar heldur þurfa þær að vera atviksbundnar og sveigjanlegar eftir áhættu og aðstæðum hverju sinni þó svo að til staðar þurfi að vera tilteknar meginreglur sem unnið er út frá í upphafi.
Ætla má að áhættan tengd barni einstaklings í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sé metin minni en þegar um er að ræða einstaklinginn sjálfan. Sú áhætta sem metin er í hverju tilviki fyrir sig er grundvöllur þeirra aðgerða sem tilkynningarskyldur aðili þarf að grípa til skv. 17. gr. Í tilvikum sem þessum þarf að leggja meiri áherslu á reglubundið eftirlit en ella. Í því felst að vera vel vakandi fyrir breytingum á hegðunarmynstri og greiðslum inn á reikninginn.
Telja verður að það að spyrja ólögráða einstakling í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla um upplýsingar um uppruna fjármuna sem notaðir eru í samningssambandi séu viðeigandi ráðstafanir í skilningi laga nr. 140/2018 og reglugerðar 745/2019 og því er mögulega ekki þörf á að afla aukinna gagna og skjala til að kanna uppruna auðs/fjármuna ef lítil áhætta er talin stafa af samningssambandinu (s.s. vegna eiginleika vörunnar). Þó er vert að árétta að hvert tilvik er háð heildarmati á aðstæðum og áhættuþáttum hverju sinni.
Dagsetning: 2. október 2024
Efnisorð: AML, CTF
Þegar um er að ræða viðskiptamenn og raunverulega eigendur sem eru einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er gerð krafa í lögum og reglum um að tilkynningarskyldir aðilar taki tiltekin skref til viðbótar við hefðbundna áreiðanleikakönnun og viðhafi aukið eftirlit með þeim viðskiptamönnum. Þau viðbótar skref sem lögin gera kröfu um eiga að vera áhættumiðuð og miðast við þá áhættu sem talin er stafa af viðkomandi aðila og hversu áhættusama tegund af fjármálaþjónustu er um að ræða líkt og komið er inn á hér að neðan.
Ástæða þess að gerðar eru auknar kröfur
Hugtakið einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er skilgreint í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en í stuttu máli er átt við einstaklinga sem gegna háttsettri opinberri stöðu eða tengjast slíkum aðila. Sú aukna áhætta sem getur talist stafa af einstaklingum í slíkri stöðu er tengd því að þeir geta haft völd eða áhrif og því í aðstöðu til að misnota stöðu sína. Lagakröfum varðandi viðeigandi áhættumat og skilvirkt verklag tilkynningarskylds aðila er ætlað að stýra þeirri áhættu sem kann að stafa af einstaklingum í slíkri stöðu og auka gagnsæi og trúverðugleika fjármálakerfisins. Lagakröfur sem tengdar eru einstaklingum í stjórnmálalegum áhættuhópi er ætlað að vera fyrirbyggjandi og ætti ekki að túlka á þann veg að slíkir einstaklingar séu sjálfkrafa viðriðnir refsiverða háttsemi.
Áhættumiðuð nálgun
Með lögum nr. 140/2018 var tilkynningarskyldum aðilum gert skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni og hafa áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum sínum og viðskiptum. Áhættumatinu er ætlað að greina áhættu í starfsemi tilkynningarskyldra aðila og greina annars vegar aðstæður þar sem meiri hætta er á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar aðstæður þar sem er minni hætta á slíkri háttsemi. Niðurstöður áhættumats skal m.a. nota til að leggja mat á hversu ítarlega áreiðanleikakönnun skuli framkvæma, að teknu tilliti til ófrávíkjanlegra lögbundinna krafna, og til að ákveða fyrirkomulag reglubundins eftirlits með samningssamböndum.
Í leiðbeiningum FATF um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er m.a. fjallað um að áhætta tengd slíkum einstaklingum geti verið mishá. Áhættan byggir m.a. á þáttum eins og stöðu eða áhrifum, því meiri völd sem að einstaklingurinn hefur því fleiri möguleikar eru til misnotkunar. Sem dæmi kann að skipta máli frá hvaða ríki viðkomandi er en til að mynda eru aðilar frá löndum með veikt stjórnarfar eða mikla spillingu taldir áhættumeiri.[1]
Í áhættumati er mælst til þess að búið sé að greina áhættu sem stafar af mismunandi tegundum einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla svo kröfur til gagna og upplýsinga sé út frá metinni áhættu hverju sinni. Sem dæmi má nefna að almennt teljist erlendir einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla áhættumeiri en innlendir, auk þess að viðskiptamenn sem tengjast einstaklingi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla teljast almennt áhættuminni en þeir sem sjálfir gegna háttsettri opinberri stöðu.
Lykilatriðið við framkvæmd skilvirkra aðgerða vegna einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er að aðgerðir tilkynningarskyldra aðila vegna slíkra einstaklinga endurspegli þá raun áhættu sem metin er stafa af því tiltekna samningssambandi. Þá er rétt að árétta að þó að kröfurnar sem gerðar eru í lögunum um framkvæmd áreiðanleikakönnunar á einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla séu formfastar þá ætlast fjármálaeftirlitið engu að síður til þess að umfang áreiðanleikakönnunar taki mið af metinni áhættu hverju sinni svo sem áhrifastöðu aðilans og tegund fjármálaþjónustu sem viðkomandi fær.
Kröfur sem gerðar eru til eftirlits með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla
Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 140/2018. Þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að sé viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skulu tilkynningarskyldir aðilar, til viðbótar við áreiðanleikakönnun;
a) fá samþykki yfirstjórnar áður en stofnað er til samningssambands eða viðskipta eða þeim er haldið áfram.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 140/2018 kemur fram að með samþykki yfirstjórnar sé átt við aðila sem að hefur heimild eða umboð innan tilkynningarskylds aðila til að samþykkja viðskipti við einstakling í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Mikilvægt er að það sé skjalfest í reglum eða ferlum tilkynningarskyldra aðila hverjir það eru sem hafi heimild til að veita slíkt samþykki auk þess að æskilegt er að formlegt samþykki sé skjalfest. Fjármálaeftirlitið styðst við viðmiðunarreglur EBA um áhættuþætti vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka sem tóku gildi 26. október 2021 (EBA/GL/2021/02) í eftirlitsframkvæmd og hefur beint því til tilkynningarskyldra aðila að kynna sér þær og taka mið af þeim í starfsemi sinni.[2] Í viðmiðunarreglunum segir m.a. að sá sem heimild hefur til að veita samþykkið skuli hafa nægjanlega reynslu og yfirsýn til að taka upplýsta ákvörðun um málefni sem gætu haft áhrif á áhættusnið tilkynningarskylda aðilans.
b) grípa til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs viðkomandi og uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 140/2018 segir að með uppruna fjármuna sé átt við hvaðan þeir fjármunir stafa sem notaðir eru í viðskiptasambandinu á meðan uppruni auðs vísar til heildareigna viðskiptamanns. Í báðum tilvikum skal uppruni þeirra kannaður, svo sem hvort uppruni auðs og fjármuna er tekjur, arfur eða fjárfestingar. Markmiðið er að meta hvort viðskiptin séu í eðlilegum tengslum við fjárhagslega stöðu viðkomandi. Í viðmiðunarreglunum er einnig komið inn á þessa skyldu út frá áhættumiðaðri nálgun en þar segir að tilkynningarskyldir aðilar skuli grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þeir taki ekki við fjármunum sem eru afrakstur spillingar eða annarrar refsiverðrar háttsemi. Þær ráðstafanir sem gripið er til skuli byggja á áhættumiðaðri nálgun og ráðast af því hversu mikil áhætta fylgi viðskiptasambandinu. [3]
Í tilvikum viðskiptamanna sem eru einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sem metnir hafa verið áhættulitlir felst könnun á uppruna auðs og uppruna fjármuna í því að afla og skilja upplýsingar um uppruna fjármuna og uppruna auðs. Þegar um er að ræða viðskiptamenn sem eru einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sem metnir hafa verið áhættumeiri þarf að sannreyna uppruna fjár og auðs með traustum og sjálfstæðum gögnum og upplýsingum svo sem samningum, launaseðlum eða skattframtali.
Einnig kann að vera tilefni til að gera minni kröfur til upplýsinga og framvísunar gagna þrátt fyrir að um sé að ræða viðskiptamenn sem eru áhættumeiri einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla ef fjármálaþjónustan sem verið er að veita hefur verið metin áhættulítil í áhættumati tilkynningarskylds aðila. Þannig kann að vera óskað eftir mismunandi upplýsingum og gögnum eftir því hve áhættusamur viðskiptamaðurinn er og hve áhættusama tegund af fjármálaþjónustu um ræðir.
Ráðstafanirnar skulu vera fullnægjandi og viðeigandi og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.
c) hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
Hér er átt við tíðara og umfangsmeira eftirlit en kveðið er á um í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 140/2018. Eftirlitið getur hvort sem er verið handvirkt eða sjálfvirkt, allt eftir umfangi, tegund starfsemi og skipulagi tilkynningarskyldra aðila. Hér er mikilvægt að nýta þær upplýsingar sem aflað er um uppruna fjár og auðs og er þeim upplýsingum og/eða gögnum ætlað að vera til hliðsjónar við reglubundið eftirlit. Rétt eins og með viðeigandi ráðstafanir samkvæmt b) lið hér að framan skal umfang aukins reglubundins eftirlits fara eftir því hversu mikil áhætta tengist stjórnmálalegum tengslum aðila og tegund fjármálaþjónustu sem verið er að veita. Aukið reglubundið eftirlit skal vera fullnægjandi og viðeigandi og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu er mikilvægt að tilkynningarskyldir aðilar geri grein fyrir því í áhættumati hvaða áhættuþættir leiði til þess að tilteknir einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla teljist áhættumeiri eða áhættuminni en aðrir aðilar innan þess hóps, svo hægt sé að mæta þeirri raun áhættu sem af þeim stafar með viðeigandi mótvægisaðgerðum hverju sinni. Hvað telst viðeigandi ráðstafanir í hverju einstaka tilviki fer eftir því hversu mikil áhætta tengist stjórnmálalegum tengslum viðkomandi og hversu mikil áhætta telst stafa af þeirri fjármálaþjónustu sem veitt er.
[1] FATF Guidance, Politically exposed persons
[2] EBA GL 2021 02 – consolidated (amended by EBA GL 2023 03)
[3] EBA GL 2021 02 – consolidated (amended by EBA GL 2023 03) kafli 4.48-4.52.
Dagsetning: 3. október 2025