Stríðsátök geisa áfram í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Víða í nágrannalöndum Íslands hefur pólitísk óvissa aukist og vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða. Mörg ríki Evrópu hafa aukið útgjöld til varnarmála á síðustu mánuðum og þar er búist við áframhaldandi hallarekstri hins opinbera. Aukin áhersla er á verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum, sem ýtir enn frekar undir brotamyndun í alþjóðastjórnmálum, truflar framboðskeðjur, eykur viðskiptakostnað, truflar verðmyndun á mörkuðum og hefur neikvæð áhrif á fjárfestingu og efnahagsumsvif. Til lengri tíma getur hægt á vexti framleiðslugetu heimsbúskapsins. Viðbúið er að áhrifin nái hingað til lands með beinum eða óbeinum hætti, meðal annars með minni efnahagsumsvifum og minni eftirspurn eftir ferðum til Íslands.