Meginmál

Með eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis er átt við eigið fé sem mætir tapi að fullu um leið og það raungerist. Slíkt eigið fé samanstendur af eiginfjárþætti 1, sem skiptist í almennt eigin fé þáttar 1 og viðbótar eigin fé þáttar 1, eiginfjárþætti 2 og frádráttarliðum.

Til almenns eigin fjár þáttar 1 telst einkum innborgað hlutafé eða stofnfé, yfirverðsreikningur hlutafjár eða stofnfjár, óráðstafað eigið fé og varasjóðir. Einungis eiginfjárgerningar með ótakmarkaðan líftíma geta talist til viðbótar eigin fjár þáttar 1. Eiginfjárþáttur 2 tekur til eiginfjárgerninga sem mæta tapi þegar rekstrarhæfi er brostið, t.d. víkjandi skuldabréf með takmarkaðan líftíma. Til frádráttarliða telst tap yfirstandandi árs,  samþykkt arðsúthlutun og ef við á fyrirsjáanleg arðsúthlutun, viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir, reiknuð skattinneign, bókfært virði eigin hluta í eigu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis o.fl.

Áhættugrunnur fjármálafyrirtækis er reiknaður út með því að vega bókfært virði einstakra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækisins, s.s. útlána og annarra eigna hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, með svonefndum áhættuvogum og leggja svo saman (áhættuvegnar eignir).

Í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR), eru gerðar ýmsar kröfur til fjármálafyrirtækja um eigið fé, m.a. um magn, gæði og samsetningu þess, hlutfall þess af áhættugrunni, endurkaup þess og vogun.