Heimild til endurkaupa eigin hluta
Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (CRR) þarf fjármálafyrirtæki fyrirframsamþykki fjármálaeftirlitsins til að:
Lækka, innleysa eða endurkaupa gerninga sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 (e. Common Equity Tier 1, CET1) sem hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki hefur gefið út í samræmi við lög nr. 2/1995, um hlutafélög.
Lækka, greiða út eða endurflokka yfirverðsreikninga hlutafjár eða stofnfjár.
Innkalla, uppgreiða, endurgreiða eða endurkaupa gerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 (e. Additional Tier 1, AT1) eða þáttar 2 (e. Tier 2, T2), eftir því sem við á, fyrir samningsbundinn gjalddaga þeirra.
Í 1. mgr. 78. gr. CRR er kveðið á um skilyrði þess að fjármálaeftirlitið heimili lækkun, innlausn eða endurkaup gerninga sem teljast til eiginfjárgrunns, sbr. 2.-4. mgr. sömu greinar. Fullnægja þarf öðru hvoru eftirfarandi skilyrða:
að hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki gefi út nýja eiginfjárgerninga af sömu gæðum eða meiri, með skilmálum sem eru sjálfbærir hvað varðar tekjuhæfi þess, fyrir lækkun, innlausn eða endurkaup, eða á sama tíma og slík ráðstöfun á sér stað, eða
að fjármálafyrirtækið hafi að mati fjármálaeftirlitsins sýnt fram á með fullnægjandi hætti að eiginfjárgrunnur þess og hæfar skuldbindingar myndu eftir lækkun, innlausn eða endurkaupa vera umfram viðeigandi varfærniskröfur sem mælt er fyrir um í CRR, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 70/2020, um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sem nemur fjárhæð sem fjármálaeftirlitið telur nauðsynlega.
Nánar er fjallað um heimild til lækkunar, innlausnar eða endurkaupa gerninga sem teljast til eiginfjárgrunns í ákvæðum 1. undirþáttar 2. þáttar IV. kafla framseldrar reglugerðar (ESB) nr. 241/2014, sbr. reglur nr. 696/2024, um útreikning fjármálafyrirtækja á eiginfjárgrunni og hæfum skuldbindingum.
Fullbúin beiðni skal almennt send fjármálaeftirlitinu fjórum mánuðum áður en lækkun, innlausn eða endurkaup gerninga sem teljast til eiginfjárgrunns á að eiga sér stað. Ef um endurnýjun á almennri beiðni er að ræða skal hún hafa borist fjármálaeftirlitinu þremur mánuðum áður en ráðstöfunin á að eiga sér stað. Fjármálaeftirlitið getur við sérstakar aðstæður heimilað fjármálafyrirtæki að skila inn beiðni innan styttri tímaramma. Fjármálaeftirlitið afgreiðir fullbúna beiðni innan sömu tímafresta.
Bent er á að í dreifibréfi nr. 29/2024 um framkvæmd lækkunar, innlausnar eða endurkaupa gerninga sem teljast til eiginfjárgrunns er fjallað nánar um efnið.
Upplýsingagjöf vegna beiðni um heimild til endurkaupa eigin hluta má finna í eyðublaðaleit vefsins.
Vakin er athygli á því að í framangreindri umfjöllun eru ekki fjallað um önnur lagaákvæði sem kunna að gilda um endurkaup eigin hluta, m.a. ákvæði VIII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eða ákvæði um endurkaupaáætlanir samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum.
Til hliðsjónar er rétt í þessu samhengi að benda á að samkvæmt 2. mgr. 77. gr. CRR þarf fjármálafyrirtæki fyrirframsamþykki skilavalds Seðlabankans fyrir innköllun, innlausn, endurgreiðslu eða endurkaup gerninga fyrir samningsbundinn gjalddaga þeirra, annarra en eiginfjárgerninga, sem teljast til hæfra skuldbindinga (e. Eligible Liabilities). Í 1. og 2. mgr. 78. gr. a CRR er kveðið á um skilyrði þess að skilavaldið veiti slíkt leyfi. Nánar er fjallað um beiðni um slíkt leyfi í ákvæðum 2. undirþáttar 2. þáttar IV. kafla framseldrar reglugerðar (ESB) nr. 241/2014, sbr. reglur nr. 696/2024, og eyðublaði sem skilavaldið hefur gefið út.