Almennt
Um starfsheimildir lánastofnana fer samkvæmt 20.-23. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Almennt er lánastofnunum ekki heimilt að stunda aðra starfsemi, eða óskylda starfsemi sem ekki tengist fjármálaþjónustu, nema hún sé tímabundin, eins og nánar er fjallað um hér að neðan.
Um almennar starfsheimildir, þ.m.t. heimildir til fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi og viðbótarþjónustu, sbr. lög nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga, fer samkvæmt 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Um aðra starfsemi og heimildir fer samkvæmt 21.-23. gr. laganna. Fjallað er um aðra þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi í 21. gr., tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna í 22. gr. og heimildir til vátryggingastarfsemi í 23. gr. laganna.
Áður en lánastofnun hefur starfsemi sem ekki fellur undir almennar starfsheimildir samkvæmt 20. gr. laganna verður að taka afstöðu til þess hvort um sé að ræða aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi. Mikilvægt er að lánastofnun geri sér grein fyrir því undir hvaða lagaákvæði tiltekin starfsemi fellur. Í því sambandi ber að líta til þess hvort starfsemi teljist í eðlilegum tengslum við starfsheimildir lánastofnunarinnar, sé í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu hennar eða hvort um óskylda starfsemi sé að ræða. Við mat á þessu horfir fjármálaeftirlitið fyrst og fremst til eðlis starfseminnar við mat á því hvort um sé að ræða aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi.
Starfsemi lánastofnunar getur verið stunduð innan viðkomandi lánastofnunar, í sérstöku félagi eða með annars konar þátttöku í starfsemi, bæði hér á landi og erlendis. Ef um veigalítinn eignarhlut í félagi er að ræða, undir 10%, hefur fjármálaeftirlitið almennt litið svo á að slíkt teljist sem viðskipti fyrir eigin reikning, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna. Ef eignarhlutur lánastofnunar er 20% eða stærri telst félagið hlutdeildarfélag eða eftir atvikum dótturfélag. Í slíkum tilvikum þarf almennt að flokka eignarhlutinn sem annaðhvort hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi. Við mat á því hvort um aðra þátttöku í starfsemi sé að ræða er meðal annars litið til stjórnarsetu í félagi, hluthafasamkomulags eða annarra áhrifa sem kunna að gera lánastofnun að þátttakanda í starfsemi félags.
Lánastofnun ber að sjá til þess að fyrir hendi séu verkferlar og fullnægjandi innra eftirlit til þess að tryggja framkvæmd gildandi lagaákvæða um starfsemi lánastofnunar. Í þessu sambandi verða stjórnendur lánastofnunar á hverjum tíma að hafa yfirsýn yfir starfsemi viðkomandi fyrirtækis og undir hvaða lagaákvæði tilteknir þættir starfseminnar falla.
Lánastofnun skal hálfsárslega skila fjármálaeftirlitinu skýrslu um hliðar- og tímabundna starfsemi. Skýrsluskilin miðast við 31. desember og 30. júní ár hvert og skilað í samræmi við gildandi kröfur fjármálaeftirlitsins varðandi gagnaskil.
Önnur þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi
Önnur þjónustustarfsemi
Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki er lánastofnun heimilt að sinna annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við starfsheimildir þeirra, sbr. 20. gr. sömu laga.
Hliðarstarfsemi
Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki, er lánastofnun heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu hennar. Tekur það einnig til þess þegar lánastofnun á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi.
Senda skal tilkynningu til fjármálaeftirlitsins ef fyrirhugað er að stunda hliðarstarfsemi. Með slíkri tilkynningu skulu fylgja upplýsingar um hina fyrirhuguðu starfsemi sem fjármálaeftirlitið metur fullnægjandi. Hafi fjármálaeftirlitið ekki gert athugasemd við hina fyrirhuguðu starfsemi innan eins mánaðar frá því að fullnægjandi tilkynning berst skal litið svo á að heimilt sé að hefja starfsemina. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að starfsemin sé stunduð í sérstöku félagi, en skal þá tilkynna viðkomandi aðila um þá ákvörðun sína innan fyrrgreinds frests. Sé vanrækt af hálfu lánastofnunar að senda tilkynningu getur fjármálaeftirlitið bannað starfsemina eða krafist þess að hún sé stunduð í sérstöku félagi.
Hliðarstarfsemi verður ávallt að vera í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu hlutaðeigandi lánastofnunar. Ákvæðið tekur fyrst og fremst til starfsemi sem ekki telst fjármálaþjónusta en telst þó engu að síður að vera þjónusta sem tengist starfsemi lánastofnunar. Sem dæmi um hliðarstarfsemi má nefna félög í eigu lánastofnunar sem halda utan um fasteignir sem hýsa rekstur hlutaðeigandi lánastofnunar, félög sem halda utanum fullnustueignir, þ.e. fasteignir og lausafé, eignarhluti í öðrum eftirlitsskyldum aðilum og eignarhluti í félögum sem veita nauðsynlega stoðþjónustu.[1]
Ef félag sem telst vera í hliðarstarfsemi á eignarhluti í öðrum félögum ber að tilkynna um alla eignarhluti hlutaðeigandi félags til fjármálaeftirlitsins sem tryggir gagnsæi að því er varðar óbeint eignarhald lánastofnunar.
Upplýsingagjöf vegna tilkynningar um hliðarstarfsemi má finna í eyðublaðaleit vefsins.
Póstþjónusta og önnur umboðsþjónusta
Lánastofnun er heimilt samkvæmt sérstökum samningi að fengnu samþykki fjármálaeftirlitsins að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
Lánastofnun er enn fremur heimilt að veita þjónustu í umboði annarra, svo sem vátryggingafélaga, endurtryggingafélaga, lífeyrissjóða og annarra fjármálafyrirtækja, enda telji fjármálaeftirlitið þá starfsemi hvorki skerða möguleika hennar til þess að veita þjónustu samkvæmt starfsleyfi sínu né skerða möguleika þess til að hafa eftirlit með starfseminni. Skal fjármálaeftirlitinu tilkynnt fyrir fram um áform viðkomandi lánastofnunar svo að mat þess geti legið fyrir áður en veiting þjónustunnar hefst.
Tímabundin starfsemi og yfirtaka eigna
Tímabundin starfsemi
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki er lánastofnun aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í IV. kafla laganna að það sé tímabundið og í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila.
Tilkynningu lánastofnunar þess efnis, ásamt rökstuðningi, skal send fjármálaeftirlitinu sem metur hvort fjárhagsleg skilyrði séu uppfyllt og skal endurskipulagningu lokið áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að starfsemin hófst. Fjármálaeftirlitið getur framlengt tímafrestinn og skal í umsókn lánastofnunar rökstutt hvaða atvik hindra sölu. Lánastofnun skal einnig tilkynna fjármálaeftirlitinu um lok tímabundinnar starfsemi.
Ákvæðið heimilar lánastofnun öðrum þræði að stunda óskylda starfsemi tímabundið á meðan verið er að endurskipuleggja hana eða ljúka viðskiptum. Með endurskipulagningu og lúkningu viðskipta er átt við fjárhagslega endurskipulagningu starfseminnar sem lýkur með svo með samningi við hlutaðeigandi viðskipavin, sölu hennar til annarra fjárfesta eða með gjaldþroti takist hún ekki.[2] Fjármálaeftirlitið áréttar að við endurskipulagningu fyrirtækja er óheimilt að haga samningsgerð þannig að ómögulegt sé að fullnægja hinum lögbundna tímafresti.
Hafi lánastofnun, eða dótturfélag hennar, þurft að grípa til slíkra aðgerða. og tekið yfir a.m.k. 40% eignarhlut í viðskiptaaðila sínum skulu ákvæði II. og IV. kafla laga nr. 20/2021, um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, gilda um viðskiptaaðilann eftir því sem við á. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þessu enda sé fjárhagslegri endurskipulagningu lokið innan sex mánaða frá því að lánastofnunin, eða dótturfélag hennar, hóf starfsemina.
Upplýsingagjöf vegna tilkynningar um tímabundna starfsemi og umsóknar um aukinn tímafrest vegna hennar má finna í eyðublaðaleit vefsins.
Yfirtaka eigna
Lánastofnunum er heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og hagkvæmt er.
Undir heimildina falla eignir viðskiptavina lánastofnana sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum. Ákvæðið veitir lánastofnun heimild til að yfirtaka slíkar eignir til að tryggja fullnustu kröfu, s.s. fasteignir og lausafjármunir (eða lausafé). Ekki þarf að tilkynna fjármálaeftirlitinu um yfirtöku á fullnustueignum.
Vátryggingastarfsemi í sérstöku félagi
Viðskiptabönkum, sparisjóðum með stofnframlag samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki og lánafyrirtækjum er heimilt að reka vátryggingafélag eða endurtryggingafélag í sérstöku félagi, sbr. 23. gr. sömu laga.
[1] Samkvæmt 17. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki er félag í viðbótarstarfsemi skilgreint sem félag sem hefur að meginstarfsemi að eiga eða hafa umsjón með fasteignum eða sjá um gagnavinnsluþjónustu eða svipaða þjónustu sem er til viðbótar við meginstarfsemi eins eða fleiri fjármálafyrirtækja. Um slík félög gilda einnig sérstakar kröfur við útreikning á eiginfjárþörf o.fl. samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR).
[2] Til hliðsjónar fer einnig um eignarhluti lánastofnunar í aðila utan fjármálageirans samkvæmt 89.-91. gr. CRR.