Fara beint í Meginmál

Almennt

Fjármálafyrirtæki skulu hafa eftirlit með og stjórna stórum áhættuskuldbindingum í samræmi við fjórða hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (CRR), sbr. 78. gr. c laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um stýringu samþjöppunaráhættu.

Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hafa það meginhlutverk að stuðla að áhættudreifingu í rekstri fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir keðjuverkun fjárhagslegra erfiðleika hjá viðskiptavini eða hópi tengdra viðskiptavina. Í því skyni hafa verið settar reglur sem takmarka hversu mikla áhættu fjármálafyrirtæki geta stofnað til gagnvart viðskiptavini eða hópi viðskiptavina sem eru innbyrðis tengdir á nánar tiltekinn hátt.

Í fjórða hluta CRR, eða nánar tiltekið í ákvæðum 387.-403. gr. reglugerðarinnar, er kveðið á um stórar áhættuskuldbindingar. Þar er meðal annars mælt fyrir um skilgreiningu og útreikning á stórum áhættuskuldbindingum, takmarkanir á slíkum áhættuskuldbindingum, undanþegna eignaliði og  tilkynningarskyldu og skýrslugjöf fjármálafyrirtækja.

Stór áhættuskuldbinding

Fjármálafyrirtæki skulu búa yfir traustum stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og fullnægjandi innra eftirlitskerfi til að greina, stýra, hafa eftirlit með, gefa skýrslur um og skrá allar stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á þeim, sbr. 393. gr. CRR.

Áhættuskuldbinding vegna viðskiptavinar eða hóps tengdra viðskiptavina telst stór áhættuskuldbinding ef virði hennar nemur 10% eða meira af eiginfjárþætti 1 (e. tier 1 capital), sbr. 392. gr. CRR. Með áhættuskuldbindingu í þessum skilningi er átt við sérhverja eign eða lið utan efnahagsreiknings án þess að áhættuvogum eða áhættuvægi sé beitt, sbr. 389. gr. CRR.

Með hópi tengdra viðskiptavina í fyrrnefndum skilningi er átt við annað eftirfarandi, sbr. 39. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR:

  1. Tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum.

  2. Tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a-lið, en þeir teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum, einkum í tengslum við fjármögnun eða endurgreiðslu skulda, eigi hinn aðilinn eða allir í erfiðleikum með fjármögnun eða endurgreiðslu skulda.

Með reglum nr. 1343/2024, um stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja, hafa verið innleiddar þrjá framseldar reglugerðir Evrópusambandsins sem varða stórar áhættuskuldbindingar. Um er að ræða framselda reglugerð (ESB) nr. 1187/2014, um ákvörðun heildaráhættuskuldbindingar vegna viðskiptavinar eða hóps tengdra viðskiptavina að því er varðar viðskipti með undirliggjandi eignir, framselda reglugerð (ESB) 2023/2779, sem tilgreinir viðmið fyrir auðkenningu á skuggabankastarfsemi, sbr. 2. mgr. 394. gr. CRR, og framselda reglugerð (ESB) 2024/1728, sem tilgreinir nánar við hvaða aðstæður skilyrði fyrir auðkenningu á hópum tengdra viðskiptavina eru uppfyllt

Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hefur gefið út viðmiðunarreglur (EBA/GL/2017/15),[1] sem fjalla um hóp tengdra viðskiptavina og viðmiðunarreglur (EBA/GL/2015/20),[2] sem fjalla um takmörkun áhættuskuldbindinga vegna viðskiptavina sem stunda skuggabankastarfsemi.

Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum

Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum eru mismunandi eftir því hvort hlutaðeigandi viðskiptavinur er fjármálafyrirtæki eða ekki, sbr. 395. gr. CRR.

Meginreglan er að fjármálafyrirtæki skal ekki stofna til áhættuskuldbindingar, að teknu tilliti til áhrifa mildunar útlánaáhættu, vegna viðskiptavinar eða hóps tengdra viðskiptavina þar sem virðið fer yfir 25% af eiginfjárþætti 1, sbr. 1. mgr. 395. gr. CRR.

Ef hlutaðeigandi viðskiptavinur er fjármálafyrirtæki eða ef eitt eða fleiri fjármálafyrirtæki eru innan hóps tengdra viðskiptavina skal umrætt virði ekki vera umfram 25% af eiginfjárþætti 1 eða 10 milljarðar króna[3], eftir því hvort er hærra, að því tilskildu að heildarvirði áhættuskuldbindinga, að teknu tilliti til áhrifa mildunar útlánaáhættu, vegna allra tengdra viðskiptavina, sem ekki eru fjármálafyrirtæki, fari ekki yfir 25% af eiginfjárþætti 1, sbr. fyrstu undirgrein 1. mgr. 395. gr. CRR. Ef fjárhæðin 10 milljarðar króna fer yfir 25% af eiginfjárþætti 1 hjá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki skal virði áhættuskuldbindingarinnar, að teknu tilliti til áhrifa mildunar, ekki fara yfir hæfileg mörk með hliðsjón af eiginfjárþætti 1, sem fjármálafyrirtækið skal ákveða í samræmi við stefnur og verklagsreglur sínar til að bregðast við og stýra samþjöppunaráhættu, sbr. 78. gr. c laga um fjármálafyrirtæki. Mörkin mega þó ekki fara yfir 100% af eiginfjárþætti 1.

Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingumHlutfall af eiginfjárþætti 1

Stór áhættuskuldbinding

10%

Takmörkun á stórum áhættuskuldbindingum

25%

Takmörkun á stórum áhættuskuldbindingum vegna fjármálafyrirtækja

25% / 10 ma. kr. en þó ekki yfir 100%

Undanþegnar áhættuskuldbindingar

Í 1. mgr. 400. gr. CRR er listi yfir tegundir áhættuskuldbindinga sem eru undanþegnar reglum um stórar áhættuskuldbindingar, einkum er um að ræða eignaliði sem fela í sér tryggðar eða ótryggðar kröfur á ríkisstjórnir, seðlabanka eða aðra opinbera aðila og sams konar kröfur á alþjóðastofnanir eða fjölþjóðlega þróunarbanka. Fjármálaeftirlitinu er heimilt samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, að nánar tilteknum skilyrðum fullnægðum, sbr. 3. mgr. greinarinnar, að undanskilja að einhverju eða öllu leyti, nánar tilteknar áhættuskuldbindingar. Samkvæmt 4. gr. reglna nr. 789/2022, um  beitingu val- og heimildarákvæða samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, hefur fjármálaeftirlitið undanskilið sértryggð skuldabréf og að hluta kröfur á nánar tilteknar héraðs- og sveitastjórnir frá reglum um stórar áhættuskuldbindingar.

Tilkynningarskylda

Fari áhættuskuldbinding yfir 25% af eiginfjárþætti 1 skal hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki án tafar tilkynna fjármálaeftirlitinu um virði áhættuskuldbindingarinnar og má það, ef tilefni er til, veita fjármálafyrirtækinu ákveðinn frest til að fara að mörkunum, sbr. 396. gr. CRR.

Nánar er fjallað um tilkynningarskyldu fari áhættuskuldbinding yfir 25% af eiginfjárþætti 1 í viðmiðunarreglum EBA (EBA/GL/2021/09).[4]


[1] Guidelines on connected clients under Article 4(1)(39) of Regulation (EU) No 575/2013.

[2] Guidelines on limits on exposures to shadow banking entities which carry out banking activities outside a regulated framework under Article 395(2) of Regulation (EU) No 575/2013.

[3] Samkvæmt 3. gr. reglna um  beitingu val- og heimildarákvæða samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, skulu fjárhæðarmörk áhættuskuldbindinga vegna viðskiptamanns sem er fjármálafyrirtæki eða vegna hóps tengdra viðskiptamanna þar sem einn, eða fleiri, er fjármálafyrirtæki samkvæmt 1. mgr. 395. gr. CRR, vera 10 milljarðar króna í stað 150 milljóna evra.

[4] Guidelines specifying the criteria to assess the exceptional cases when institutions exceed the large exposure limits of Article 395(1) of Regulation (EU) No 575/2013 and the time and measures to return to compliance pursuant to Article 396(3) of Regulation (EU) No 575/2013.