Meginmál

Samruni vátryggingafélaga

Um samruna vátryggingafélags við annað fyrirtæki fer samkvæmt 35. og 36. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, sbr. lög nr. 2/1995, um hlutafélög.

Óski vátryggingafélög sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi eftir því að samruni eigi sér stað með yfirtöku eins eða fleiri vátryggingafélaga með slitum þeirra, þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar að öllu leyti án þess að til skiptameðferðar komi, skulu öll félögin senda fjármálaeftirlitinu umsókn ásamt drögum að samkomulagi milli félaga um samrunann og með þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg, sbr. 35. gr. laganna. Sama gildir óski tvö eða fleiri vátryggingafélög eftir því að samruni með stofnun nýs vátryggingafélags eigi sér stað með slitum án skiptameðferðar þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar til hins nýja félags. Skilyrði samruna er að leyfi til yfirfærslu vátryggingastofna sé veitt, sbr. 34. gr. laganna.

Hið sama á við um félög, sem sinna hliðarstarfsemi fyrir hönd vátryggingafélags í samræmi við 5. gr. laganna, sem óska eftir að yfirfæra eignir og skuldir að öllu leyti án skiptameðferðar til vátryggingafélags.

Heimila má að samruni með yfirtöku eða með stofnun nýs félags geti farið fram þótt eitt eða fleiri félaga sem yfirtekin eru, eða lögð verða niður, fari í slitameðferð að því tilskildu að sá kostur sé bundinn við félög sem hafa ekki enn hafist handa við að úthluta eignum sínum til eigenda.

Samkvæmt 36. gr. laganna skal í drögum að samkomulagi um samruna, sem fylgja skulu umsókn, m.a. koma fram hvernig greiðslum er háttað fyrir hluti í félögum sem hætta vátryggingastarfsemi, hvenær hlutir sem kunna að vera notaðir sem greiðsla veiti rétt til arðs og annarra réttinda og hvaða réttindi eigendur hluta í félagi sem hættir starfsemi öðlast í því félagi sem tekur við eignum og skuldum, svo og aðrar ráðstafanir sem kunna að hafa í för með sér breytingar á réttindum eigenda. Einnig skal koma fram hvort stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri skuli njóta sérstakra hlunninda og þá hverra.

Lögð skulu fram staðfest reikningsuppgjör sem sýna eignir og skuldir hvers félags á þeim degi þegar samruni er fyrirhugaður ásamt sameiginlegri upphafsstöðu eftir samrunann og má uppgjörið ekki vera meira en sex mánaða gamalt þegar ákvörðun er tekin um að samruni eigi sér stað. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað að miðað sé við ársuppgjör félaganna í lok síðasta reikningsárs.

Eigi samruni sér stað með stofnun nýs félags skulu drög að nýjum samþykktum þess einnig lögð fram. Sama gildir verði gerðar breytingar á samþykktum félaga, aðrar en breytingar á nafni.

Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til samrunans. Starfsleyfi félags eða félaga, sem hætta vátryggingastarfsemi, skulu afturkölluð frá þeim degi er fjármálaeftirlitið tiltekur og félagið eða félögin teljast ekki lengur til starfandi félaga.

Upplýsingar og gögn, sem óskað er eftir í tengslum við samruna vátryggingafélaga og yfirfærslu vátryggingastofns, má finna í eyðublaðaleit vefsins.

Athygli er vakin á því að innheimt er tímagjald í tengslum við afgreiðslu umsókna um samruna eða yfirfærslu vátryggingastofns samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, sbr. gjaldskrá Seðlabanka Íslands nr. 165/2023, vegna verkefna sem tengjast fjármálaeftirliti.

Yfirfærsla vátryggingastofns

Um yfirfærslu vátryggingastofns vátryggingafélags til annars vátryggingafélags fer samkvæmt 34. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Vátryggingafélag sem hefur höfuðstöðvar hér á landi getur flutt vátryggingastofn sinn að nokkru eða öllu leyti til annars félags sem hefur fengið starfsleyfi hér á landi eða í öðru aðildarríki. Félagið skal senda fjármálaeftirlitinu umsókn um yfirfærsluna ásamt drögum að samkomulagi milli félaganna og þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg. Fjármálaeftirlitið kannar umsóknina með hliðsjón af hag beggja félaganna og hvort ástæða sé til að ætla að færslan geti skaðað vátryggingartaka og vátryggða hjá félögunum og aðra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Slík færsla er aðeins heimil ef fjármálaeftirlitið eða, ef við á, eftirlitsstjórnvald í heimaríki móttökufélags staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að lokinni yfirtöku stofnsins.

Ef við á, skal fjármálaeftirlitið leita eftir samþykki eftirlitsstjórnvalds móttökufélagsins sem hefur þrjá mánuði til að gefa álit sitt. Fjármálaeftirlitið skal einnig, ef við á, leita eftir samþykki eftirlitsstjórnvalds í því aðildarríki þar sem vátryggingarsamningar innan vátryggingastofnsins voru gerðir. Eftirlitsstjórnvaldið hefur þrjá mánuði til að gefa álit sitt. Komi ekki svar frá viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi skal litið svo á að það sé samþykkt yfirfærslunni.

Telji fjármálaeftirlitið að synja beri um leyfi til yfirfærslunnar skal félögunum tilkynnt um það án tafar. Að öðrum kosti, og sé um að ræða vátryggingaráhættu hér á landi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, skal fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar og óska eftir skriflegum athugasemdum vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta innan tiltekins frests sem eigi skal vera skemmri en einn mánuður.

Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til yfirfærslunnar að liðnum hinum lögbundna þriggja mánaða fresti telji það, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið, að orðið skuli við yfirfærslubeiðninni.

Réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum halda sjálfkrafa gildi sínu við flutninginn. Vátryggingartökum er heimilt að segja upp vátryggingarsamningum sem eru hluti af yfirfærðum stofni frá þeim degi þegar flutningur stofnsins á sér stað enda tilkynni þeir vátryggingafélagi um uppsögn sína skriflega innan mánaðar frá flutningsdegi.

Þegar vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki, sem hefur stofnsett útibú eða veitir þjónustu hér á landi, hyggst yfirfæra vátryggingastofn sinn til annars félags, sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, skal fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar ef vátryggingaráhættan er hér á landi.

Vátryggingafélag með höfuðstöðvar hér á landi getur móttekið vátryggingastofn annars félags. Slík yfirfærsla er einungis heimil ef fjármálaeftirlitið staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að lokinni yfirtöku stofnsins. Ef fjármálaeftirlitinu berst tilkynning frá eftirlitsstjórnvaldi í öðru aðildarríki um yfirfærslu vátryggingastofns til vátryggingafélags með höfuðstöðvar hér á landi skal það veita eftirlitsstjórnvaldinu álit sitt innan þriggja mánaða frá því að beiðni um yfirfærslu barst. Móttökufélagið skal senda fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna yfirfærslunnar að mati fjármálaeftirlitsins.