Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var 17,9 milljarða króna viðskiptahalli við útlönd á fyrstu sex mánuðum ársins 2003 samanborið við 2,9 milljarða króna halla á sama tíma 2002. Viðskiptahallinn á öðrum ársfjórðungi nam 15,2 milljörðum króna samanborið við 1,5 milljarða króna halla á sama tíma í fyrra. Útflutningur vöru og þjónustu minnkaði á fyrri árshelmingi um 2,3% en innflutningur jókst um 10,2% frá sama tíma í fyrra reiknað á föstu gengi1. Hallinn á jöfnuði þáttatekna (launa, vaxta og arðs af fjárfestingum) og rekstrarframlögum nettó var um 9 milljarðar króna á fyrri árshelmingi 2003, nokkru minni en í fyrra.
Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna
Ársfjórðungar:
Apríl-
júní
Janúar-
júní
2002
2003
2002
2003
Viðskiptajöfnuður
-1,5
-15,2
-2,9
-17,9
Útflutningur vöru og þjónustu
79,3
66,4
155,7
137,0
Innflutningur vöru og þjónustu
-75,5
-78,5
-147,0
-145,9
Þáttatekjur og framlög, nettó
-5,2
-3,0
-11,6
-9,0
Fjármagnsjöfnuður
11,9
20,3
27,7
40,5
Hreyfingar án forða
14,0
20,4
30,8
40,8
Gjaldeyrisforði (- aukning)
-2,1
0
-3,1
-0,2
Skekkjur og vantalið, nettó
-10,4
-5,2
-24,8
-22,7
Hreint fjárinnstreymi mældist 40,5 milljarðar króna á fyrri árshelmingi 2003 og skýrist að stærstum hluta af erlendum lántökum og skuldabréfaútgáfu í útlöndum, en einnig var 11,8 ma.kr. fjárinnstreymi vegna kaupa erlendra aðila á skuldabréfum útgefnum á Íslandi. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 14,1 milljarði króna sem er ríflega helmingi meira en árið áður. Önnur eignamyndun í útlöndum var mikil á fyrri hluta ársins 2003, einkum jukust erlendar innstæður bankanna. Nokkurt fjárútstreymi varð vegna sölu erlendra aðila á eignarhlut sínum í atvinnurekstri á Íslandi á fyrri hluta ársins.Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 36,9 milljörðum króna í júnílok og hafði lítið breyst frá ársbyrjun.
Í dag mánudaginn 1. september 2003 birtist töfluyfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu í hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans: (www.sedlabanki.is).
Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson, deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands, í síma 569-9600.
1. Viðskiptavegin gengisvísitala var 9,9% lægri á fyrri árshelmingi 2003 en á sama tímabili í fyrra.
Nr. 22/2003
1. september 2003