Sérstök endurgreiðsla á erlendum lánum ríkissjóðs 2. maí 2005
Endurgreidd verða lán á gjalddaga á tímabilinu 13. til 27. maí n.k. Fjármálaráðuneytið hefur vegna þessa óskað eftir að kaupa 100 milljónir dala af Seðlabankanum, jafnvirði liðlega 6 ma.kr.
Í desemberhefti Peningamála 2004 sagði að til þess að mæta þörfum ríkissjóðs vegna greiðslna af erlendum lánum 2005 umfram það sem rúmast innan reglulegra gjaldeyriskaupa á árinu myndi Seðlabankinn kaupa gjaldeyri fyrir hönd ríkissjóðs á innlendum millibankamarkaði. Tilhögun kaupanna yrði tilkynnt viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði með fyrirvara. Í samræmi við þetta og sérstök áform ríkissjóðs sem lýst er að framan hefur bankinn nú ákveðið að kaupa gjaldeyri á millibankamarkaði í fimm áföngum, 20 milljónir Bandaríkjadala í senn, dagana 12., 17., 19., 23. og 25. maí n.k. Seðlabankinn mun leita tilboða hjá viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði fyrir opnun viðskipta ofangreinda daga.
Ekki eru áform um frekari sérstök gjaldeyriskaup í ár vegna lánahreyfinga ríkissjóðs.
Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Guðnason bankastjóri í síma 569-9600.
Nr. 11/2005
2. maí 2005