Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur á rannsóknar- og spádeild hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands, flytur erindi á málstofu bankans þriðjudaginn 23. maí næstkomandi kl. 15.00. Erindi Þorvarðar ber heitið Peningastefna í opnu hagkerfi: Samband verðbólgu og gengis.
Ágrip:
Framkvæmd peningastefnu styðst við nýjustu þekkingu innan hagfræðinnar, niðurstöður rannsókna, fengna reynslu og spár líkana. Mikil gróska hefur einkennt öll þessi svið á undanförnum árum og ólíkt þeirri gjá sem áður var, er nú mun meiri samhljómur á milli þess sem fræðin, rannsóknir, reynslan og líkön segja til um bestu hugsanlegu framkvæmd peningastefnu, a.m.k. í lokuðu hagkerfi. Öllu meiri ágreiningur er uppi varðandi hvað fræðin, rannsóknir, reynsla og líkön segja til um framkvæmd peningastefnu í opnu hagkerfi eins og því íslenska. Umfangsmiklum rannsóknum er beint að því að byggja upp betri þekkingu á verðbólguþróun og tengslum verðbólgu og gengis í opnum hagkerfum í því skyni að leiðbeina peningamálayfirvöldum við stefnumótun. Mikilvægt er að fylgjast grannt með hröðum framförum á þessu sviði og meta hvaða lærdóma megi draga af þeim. Framsöguerindinu á málstofunni er ætlað að leggja nokkuð að mörkum til þess en erindið byggir að nokkru leyti á ítarlegri rannsóknarritgerð sem verður birt í ritröð Seðlabankans innan skamms.