Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, flytur erindi á málstofu Seðlabanka Íslands um hlutverk M í stjórn peningamála.Málstofan er haldin í Sölvhóli, Seðlabanka Íslands, og hefst kl. 15.00 Sjá nánar.
Í flestum inngangsbókum í hagfræði er það kennt skýrum stöfum að verðbólga sé peningalegt fyrirbrigði og stafi af því að of mikið af peningamagni í umferð, M, sé að eltast við of fáar vörur. Samt sem áður er það staðreynd að M hefur nær alveg horfið úr fræðilegri umræðu um hagstjórn. Flestir seðlabankar taka lítið sem ekkert tillit til M í stefnumörkun sinni. Peningamálastjórn með verðbólgumarkmiði lítur nær algerlega framhjá peningamagnsstærðum og forystumenn bandaríska Seðlabankans hafa jafnvel lýst því yfir að M hafi enga þýðingu fyrir ákvarðanir þeirra.
Í þessum fyrirlestri er farið yfir ástæður þess af hverju peningamagni var ýtt til hliðar í baráttunni gegn verðbólgu og af hverju vextir og vaxtareglur henti betur sem stýritæki og nafnverðsakkeri fyrir Seðlabanka. En jafnframt verða færð rök fyrir því að M skipti enn máli fyrir nútíma peningamálastjórnun, einkum hvað varðar fjármálastöðugleika.
Þá verður farið yfir það hvaða upplýsingar er hægt lesa úr íslenskum peningamagnsstærðum um þróun fjármálakerfisins og efnahagsframvindu. Lækkun bindiskyldu á viðskiptabanka úr 4% í 2% árið 2003 er gerð að sérstöku umfjöllunarefni. En peningamagn í umferð og útlán bankakerfisins hafa aukist mjög hröðum skrefum eftir þessa breytingu. Þeim spurningum er velt upp hvaða áhrif aukið peningamagn hefur haft á þróun hagsveiflunnar og hvort Seðlabankinn hefði átt að beita vaxtastefnu sinni með öðrum hætti með hliðsjón af lækkun bindiskyldunnar og auknu peningamagni.