Meginmál

Stýrivextir Seðlabanka Íslands óbreyttir

ATH: Þessi grein er frá 8. febrúar 2007 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir skuli vera óbreyttir. Þeir eru nú 14,25%. Verðbólga hefur hjaðnað og verðbólguhorfur til skamms tíma batnað og eru nú betri en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans. Verðbólga er þó enn sem fyrr langt yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Minni verðbólga, betri verðbólguhorfur til skamms tíma og hækkun stýrivaxta á liðnu ári fela í sér verulega hækkun raunstýrivaxta. Þá hefur miðlun stýrivaxta um vaxtarófið verið greiðari undan¬farna mánuði en oft áður og áhrif þess eiga að líkindum enn eftir að koma að fullu fram. Því kunna núverandi vextir að duga til þess að verðbólgumarkmiðinu verði náð innan ásættanlegs tíma.

Á hinn bóginn er enn mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Gríðarlegur viðskiptahalli felur í sér að stöðugleiki krónunnar er háður vilja alþjóðlegra fjárfesta og lánardrottna til að fjármagna hann. Reynslan sýnir að jafnvel hóflegar breytingar á alþjóðlegum fjármálaskilyrðum geta valdið verulegum sveiflum á gengi gjaldmiðla. Leiddu slíkar breytingar til lækkunar á gengi krónunnar myndu verðbólguhorfur versna á ný, einkum ef það gerðist á meðan mikil spenna er enn á vinnumarkaði. Enn sjást þess fá merki að farið sé að draga úr henni og laun hafa hækkað langt umfram framleiðni undanfarin ár. Frekari verðlagsáhrif þess gætu átt eftir að koma fram. Versni verðbólguhorfur á ný mun bankinn bregðast við.

Seðlabankinn birtir næstu ákvörðun bankastjórnar um stýrivexti 29. mars n.k., samhliða birtingu þjóðhags- og verðbólguspár í Peningamálum. Við mat á verðbólguhorfum mun bankinn horfa fram hjá mælingaráhrifum lækkunar virðisaukaskatts sem ekki draga úr undirliggjandi verðbólgu.

Nr. 2/2007

8. febrúar 2007