Meginmál

Málstofa um þvinguð splæsiföll og vaxtarófið

ATH: Þessi grein er frá 27. febrúar 2007 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007 fjalla Arnar Jónsson og Sverrir Ólafsson um efnið: „Notkun þvingaðra splæsifalla til að hanna íslenska vaxtarófið.“

Málstofan hefst kl. 15.00 á þriðjudaginn.

Ágrip:

Rætt verður um mikilvægi virks markaðar með áhættulaus skuldabréf, m.a. fyrir eðlilega verðmyndun fjárskuldbindinga og verðlagningu vaxtaverkfæra almennt. Lögð verður áhersla á mikilvægi virks markaðar til baktryggingar vaxtaáhættu. Litið er svo á að virkur skuldabréfamarkaður sé forsenda fyrir verðlagningu íslensku krónunnar og því sjálfstæði hennar sem gjaldmiðils. Í þessu tilfelli er mikilvægt að samstilla útgáfu verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa til þess að hægt sé að meta verðbólguvæntingar markaðarins.

Litið er á  helstu atriði vaxtarófsgreiningar og rætt um kosti og takmarkanir mismunandi aðferða. Farið verður yfir mismunandi, en jafngildar framsetningar vaxtarófsins. Þá verður rætt um hvernig verkfæri af peninga- og fjármagnsmarkaði eru notuð til að smíða vaxtarófið.

Höfundar beita bestunaraðferðum til að smíða nafnvaxtaróf íslenska markaðarins út frá upplýsingum af fjármagnsmarkaði. Sérstök áhersla er lögð á ýmis vandamál vaxtarófshönnunar á tregum mörkuðum. Höfundar nota það sem kallað er „bootstrapping“ ásamt þvingaðri bestun með aðferð minnstu fervika. Þeir ræða hvernig á tregum mörkuðum er nauðsynlegt að finna rétt jafnvægi á milli þess að lágmarka skekkju í verðlagningu athugaðra bréfa og þess að draga úr sveiflukenndu hátterni vaxtarófsins, sérstaklega framvirka vaxtarófsins.