Seðlabankastjóri hefur ákveðið að Þórarinn G. Pétursson, starfandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, skuli sitja í peningastefnunefnd. Í nefndinni sitja, auk Þórarins, Svein Harald Øygard seðlabankastjóri, sem er formaður nefndarinnar, og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri. Þá skipar forsætisráðherra tvo sérfræðinga í nefndina.
Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, samanber 4. gr. laga nr. 5/2009 um breytingu á lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, tiltekin viðskipti við lánastofnanir, ákvörðun bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar.
Frétt nr. 8/2009
3. mars 2009