Meginmál

Innstæðubréf til 3 mánaða gefið út 25. mars nk.

ATH: Þessi grein er frá 4. mars 2009 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Innstæðubréf Seðlabankans, flokkur SI 09 0325, er á gjalddaga 25. mars. nk. Útistandi í flokknum er nú um 123 ma.kr. Flokkurinn var upphaflega gefinn út í því skyni að auka framboð skammtímabréfa á markaði. Frá því að innstæðubréfið, sem nú fellur á gjalddaga, var gefið út hefur ríkissjóður aukið mikið útgáfu ríkisbréfa og ríkisvíxla. Því er minni ástæða fyrir Seðlabankann að gefa út skammtímaverðbréf.

Seðlabankinn mun gefa út innstæðubréfaflokk 25. mars nk. til 3 mánaða að fjárhæð allt að 75 ma.kr. og stefnt er að því að minnka útgáfuna enn frekar síðar. Gjalddagi nýs innstæðubréfs verður 24. júní nk.

Nýr innstæðubréfaflokkur verður að öllu leyti eins og flokkur SI 09 0325, vextir greiddir út vikulega og mögulegt er að leysa bréfin inn á reglulegum viðskiptadögum Seðlabankans.

Nánari upplýsingar veitir Gerður Ísberg staðgengill framkvæmdastjóra alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 9/2009

4. mars 2009