Meginmál

Málstofa um rannsóknir á launamun kynjanna

ATH: Þessi grein er frá 12. maí 2010 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Málstofa verður haldin miðvikudaginn 12. maí kl. 15:00 í fundarsal Seðlabankans, Sölvhóli.

Frummælendur: Margrét Kristín Indriðadóttir, deildarstjóri Launa- og kjaramáladeildar Hagstofu og Eyjólfur Sigurðsson, sérfræðingur hjá Hagstofu.

Erindi þeirra ber heitið „Rannsóknir á launamun kynjanna“.

Ágrip:

Launamunur kvenna og karla hefur verið skoðaður með margvíslegum hætti í gegnum tíðina. Markmið slíkra rannsókna hefur oft og tíðum falist í því að finna hina einu réttu tölu um launamun kynjanna. Það markmið er þó að mörgu leyti óraunhæft því mismunandi gögn, forsendur og aðferðir sem liggja að baki geta haft áhrif á niðurstöður. Því ætti markmið rannsókna á launamun ekki einungis að takmarkast við eina stærð, heldur einnig að reyna að varpa ljósi á hvað getur legið að baki þeim mun sem fram kemur á meðallaunum kvenna og karla og auka þannig skilning á undirliggjandi þáttum sem hafa áhrif á laun.

Á málstofunni verður fjallað um rannsókn Hagstofu Íslands á launamun kynjanna sem framkvæmd var í kjölfar samkomulags milli Alþýðusamband Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Hagstofu Íslands í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá febrúar 2008. Tilgangurinn með rannsókninni var að varpa ljósi á helstu aðferðir og skýringabreytur sem settar hafa verið fram um launamun kynjanna, fjalla um kosti og galla þeirra gagnasafna sem tiltæk eru á Hagstofunni og loks leggja fram aðferðafræðilegan grundvöll við útreikning á launamun kynjanna.

Greint verður frá tilurð gagnasafnsins, fjallað um ólíkar aðferðir við mælingar á launamun kynjanna og helstu niðurstöður rannsóknarinnar kynntar. Lagt var upp með að nota langsniðsgögn en með þeim, það er endurteknum mælingum á sömu einstaklingum yfir lengri tíma, er hægt að leggja mat á áhrif ómældra og jafnvel ómælanlegra þátta. Rannsóknin varð því ein umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi til þessa en niðurstöður hennar byggja á tæplega 185 þúsund athugunum á launum einstaklinga á almennum vinnumarkaði á árunum 2000 til 2007.