Meginmál

Sérrit 5: Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti

ATH: Þessi grein er frá 13. janúar 2011 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Fjármálakreppan reið yfir af fullum þunga hér á landi á árinu 2008. Hún birtist fyrst í alvarlegri gjaldeyriskreppu á fyrri hluta ársins og síðan í allsherjar bankakreppu um haustið. Efnahagsleg áhrif fjármálakreppunnar hafa verið þungbær fyrir íslensku þjóðina líkt og í mörgum öðrum löndum þar sem hin alþjóðlega fjármálakreppa varð hvað dýpst. Það er því eðlilegt að skoðað sé vandlega hvernig draga megi úr líkum á slíkum atburðum í framtíðinni. Þar kemur mjög margt til skoðunar, allt frá skipulagi hins alþjóðlega peningakerfis til siðvæðingar fjármálafyrirtækja.

Skýrslan sem hér birtist fjallar um mikilvægan en afmarkaðan þátt í því mikla umbótastarfi sem fjármálakreppan kallar á, þ.e.a.s. um fyrirkomulag fjármálaeftirlits og þátt seðlabanka í því. Skýrslunni er ætlað að skapa grundvöll fyrir vandaða umræðu um viðfangsefnið með því að kynna þau sjónarmið og rök sem hafa komið fram í umræðu um málið á alþjóðlegum vettvangi og jafnframt veita upplýsingar um hvaða breytingar hafa þegar orðið eða eru fyrirhugaðar í einstökum löndum og svæðum. Skýrslan hefur ekki að geyma ákveðna tillögu um hvernig skipulagi fjármálaeftirlits skuli háttað hér á landi í framtíðinni, þó að glöggir lesendur geti lesið út úr skýrslunni hvert talið er ráðlegast að stefna. Seðlabankinn mun væntanlega síðar taka þátt í að móta slíka tillögu í samvinnu við önnur stjórnvöld sem málið varðar.

Í efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nóvember 2008 var kveðið á um að leita bæri til reynds sérfræðings á sviði fjármálaeftirlits um að gera úttekt á regluverki og eftirliti með íslenska fjármálakerfinu. Kaarlo Jännäri var fenginn til verksins og var ein megin niðurstaða skýrslu hans í mars 2009 að sameina bæri Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið í eina stofnun eða a.m.k. setja þær undir sameiginlega stjórn. Í desember 2008 samþykkti Alþingi að setja á fót og skipa sérstaka nefnd til þess að ,,rannsaka bankahrunið, aðdraganda þess og orsakir sem og tengda atburði.“ Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010 og í framhaldinu skipaði Alþingi þingmannanefnd til að álykta um efni skýrslunnar og undirbúa viðbrögð þingsins við henni. Hinn 28. september 2010 samþykkti Alþingi samhljóma þingsályktun varðandi skýrslu þingmannanefndarinnar. Í þingsályktuninni kemur fram vilji þingsins til að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á ákveðnum sviðum, m.a. löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði og löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi á vettvangi Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og annarra eftirlitsaðila. Þá telur þingið æskilegt að rannsóknir og úttektir fari fram á vegum Alþingis, m.a. stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Markmið slíkra úttekta væri að skapa grundvöll fyrir mat á kostum og göllum þess að sameina starfsemi stofnananna ,,í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða.“ Vonandi gagnast sú skýrsla sem hér birtist til að stuðla að vandaðri stefnumótun í framhaldi af þessari ákvörðun Alþingis.

Skýrslan byggist m.a. á margvíslegum upplýsingum sem Seðlabanki Íslands hefur aðgang að frá alþjóðastofnunum, einkum Alþjóðagreiðslubankanum í Basel. Hún er tekin saman af Þorsteini Þorgeirssyni, sérstökum ráðgjafa á skrifstofu bankastjóra, en mismunandi svið bankans hafa lagt til hluta efnisins, einkum fjármálasvið, og ýmsir stjórnendur og sérfræðingar bankans hafa komið með gagnlegar ábendingar um efni skýrslunnar.