Meginmál

Yfirlýsing peningastefnunefndar 7. desember 2011

ATH: Þessi grein er frá 7. desember 2011 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Nýjustu hagtölur eru í meginatriðum í takt við spá Seðlabankans, sem birt var í nóvemberhefti Peningamála. Efnahagsbatinn hefur haldið áfram, þrátt fyrir að það dragi úr hagvexti í heiminum og óvissa hafi aukist. Verðbólga er enn fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans en nýleg þróun bendir til þess að því verði náð á spátímanum.

Veruleg óvissa ríkir um þann feril nafnvaxta sem þarf til þess að ná verðbólgumarkmiðinu. Í ljósi efnahagshorfa og hugsanlega óhagstæðrar alþjóðlegrar efnahagsþróunar virðist núverandi vaxtastig um það bil við hæfi á komandi mánuðum. Horft lengra fram á veginn verður hins vegar nauðsynlegt að draga úr núverandi slaka peningastefnunnar eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og dregur úr slaka í þjóðarbúskapnum. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum fer eftir framvindu verðbólgunnar.

 Vextirnir verða sem hér segir:

Daglánavextir

 5,75%    

Vextir af lánum gegn veði til sjö daga 

 4,75%  

Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 

 4,5%   

Innlánsvextir 

 3,75%

  

Nr. 30/2011 

7. desember 2011

Sjá hér undirritað skjal um vexti við Seðlabanka Íslands: Vextir 7. desember 2011.