Meginmál

Yfirlýsing peningastefnunefndar 21. mars 2012

ATH: Þessi grein er frá 21. mars 2012 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur.

Horfur um efnahagsumsvif eru í megindráttum svipaðar og í febrúarspá Seðlabankans. Gengi krónunnar er hins vegar veikara en í febrúar og verðbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað nokkuð frá því sem var gert ráð fyrir í spánni. Litið lengra fram á veginn er hætta á að verðbólga verði lengur fyrir ofan verðbólgumarkmið en spáð var, styrkist krónan ekki á komandi mánuðum. Í hvaða mæli þétting á glufum í gjaldeyrislögum mun hafa áhrif á gengi krónunnar kemur í ljós á næstunni.

Eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og dregur úr slaka í þjóðarbúskapnum verður nauðsynlegt að draga úr slaka peningastefnunnar. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar. Batni verðbólguhorfur ekki er líklegt að hækka þurfi nafnvexti frekar á næstunni til þess að taumhald peningastefnunnar, sem er enn tiltölulega laust, verði hæfilegt.

Nr. 12/2012

21. mars 2012

Vextirnir verða sem hér segir:

Daglánavextir

6,00% 

 Vextir af lánum gegn veði til sjö daga

 5,00%

 Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum

 4,75%

 Innlánsvextir

 4,00%