Í þessari skýrslu er fjallað um varúðarreglur sem æskilegt er að verði til staðar þegar fjármagnshreyfingar frá landinu verða á ný óheftar. Reynslan í aðdraganda fjármálakreppunnar sýnir að þótt óheftar fjár - magnshreyfingar geti ýtt undir fjármunamyndun og hagvöxt fylgir þeim einnig áhætta fyrir fjármálakerfið og innlent efnahagslíf sem nauðsynlegt er að reyna að draga úr með varúðarreglum og öflugu fjármálaeftirliti. Við losun núverandi hafta á fjármagnsútstreymi gæti orðið óstöðugleiki á gjaldeyrismarkaði. Erlendir og innlendir aðilar eiga umtalsverðar krónueignir sem nú eru lokaðar bak við höft. Þegar höftin hverfa gæti því útstreymi fjármagns orðið töluvert, þótt áætl - unin um losun hafta miði að því að draga úr þeirri áhættu eftir því sem kostur er. Í skýrslunni er greint frá varúðarreglum sem gætu dregið úr áhættu fyrir fjármálastöðugleika sem fylgir óheftum fjármagnshreyf - ingum, einkum þeirri áhættu sem felst í gjaldmiðla- og gjalddagamis - ræmi í erlendum gjaldmiðlum. Ýmsar aðrar varúðarreglur sem stuðla að stöðugleika fjármálakerfisins almennt án þess að tengjast beint fjár - magnshreyfingum yfir landamæri eða gjaldeyrisviðskiptum hafa komið til umræðu á erlendum og innlendum vettvangi. Þær eru ekki til umfjöllunar hér.
Skýrslan er í tveimur hlutum. Í fyrri hluta hennar er yfirlit um helstu tillögur um varúðarreglur er lúta að fjármagnshreyfingum. Í seinni hlutanum er ýtarlegri umfjöllun um þessar varúðarreglur en einnig fjallað um aðra valkosti. Hann er hugsaður sem framlag til umræðu um val á reglum og útfærslu þeirra.