Frá því að Íslendingar tóku upp eigin gjaldmiðil hefur reglulega átt sér stað umræða um kosti og galla mismunandi valkosta Íslands í gjaldmiðilsog gengismálum. Umræðan hefur annars vegar snúist um hvort betra sé að halda eigin gjaldmiðli og hins vegar, ef það er gert, hvaða fyrirkomulag gengismála henti best. Á síðustu árum hefur banka- og gjaldeyriskreppan sem skók innviði hagkerfisins og umsókn íslenskra stjórnvalda um aðild að Evrópusambandinu beint kastljósinu á ný að þessu málefni. Verði af aðild munu Íslendingar að öðru óbreyttu leggja af íslenska krónu, gerast aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) og taka upp evru innan nokkurra ára.
Seinni hluta árs 2010 hóf Seðlabanki Íslands vinnu við ítarlegt rit um valkosti Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum og hefur verið unnið að því frá þeim tíma með hléum. Markmiðið er að ritið verði grundvöllur málefnalegrar umræðu um efnið og auðveldi stjórnvöldum jafnt sem almenningi að taka upplýsta afstöðu til þess hvert skuli stefna í gjaldmiðlamálum þjóðarinnar.
Ritið ber heitið Valkostir Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum. Í því er fjallað ítarlega um ýmsa þætti sem þarf að hafa í huga þegar lagt er mat á heppilegasta fyrirkomulag þessara mála á Íslandi. Þótt megináherslan sé á að skoða kosti og galla þess að leggja af krónuna og taka upp evru með aðild að EMU, spannar umfjöllunin einnig kosti og galla aðildar að öðrum myntsvæðum, upptöku annars gjaldmiðils auk annars konar gengistenginga. Í ritinu er einnig fjallað um reynslu Íslendinga af núverandi fyrirkomulagi peninga- og gengismála og hún borin saman við reynslu evruríkja eftir aðild, í aðdraganda fjármálakreppunnar og í kjölfar hennar. Að síðustu fjallar ritið um stofnanauppbyggingu evrusvæðisins og þá stofnanaþætti sem þyrfti að breyta hér gerðist Ísland aðili að myntbandalaginu.
Að vinnu þessa viðamikla rits hefur komið fjöldi sérfræðinga Seðlabankans. Meginhluti hennar var unninn á Hagfræði- og peningastefnusviði bankans, en þau Ásgeir Daníelsson, Bjarni G. Einarsson, Guðjón Emilsson, Gunnar Gunnarsson, Hörður Garðarsson, Jósef Sigurðsson, Karen Á. Vignisdóttir, Lilja G. Jóhannsdóttir, Magnús F. Guðmundsson, Marías H. Gestsson, Markús Möller, Ólafur Ö. Klemensson, Ólafur G. Halldórsson, Rannveig Sigurðardóttir, Regína Bjarnadóttir, Rósa B. Sveinsdóttir, Svava J. Haraldsdóttir og Þórarinn G. Pétursson unnu kafla 2-15 og 17-24. Að auki kom Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri að ritun kafla 2 og 16, Sigríður Benediktsdóttir (Fjármálastöðugleikasviði) að ritun kafla 16, Þorsteinn Þorgeirsson (Alþjóðasamskipti og skrifstofu bankastjóra) að ritun kafla 16 og 25 og Gerður Ísberg (Markaðsviðskipti og fjárstýring), Páll Í. Kolka (Greiðslukerfi) og Ragnar Á. Sigurðsson (Lögfræðiráðgjöf) lögðu til texta í kafla 24. Helga Guðmundsdóttir, Margrét L. Hrafnkelsdóttir, Pétur Urbancic og Þorvarður Tjörvi Ólafsson lásu yfir allt ritið eða stóran hluta þess og komu með gagnlegar ábendingar um efni þess og málfar.
Allir þessir starfsmenn og aðrir þeir sem hafa komið að vinnunni eiga miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt til þessa verkefnis