Hér á eftir er gerð grein fyrir mati Seðlabanka Íslands á undirliggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins, þ.e. á erlendum eignum, skuldum og mismun þeirra (hreinni erlendri stöðu). Einnig er fjallað um skekkjur í fyrri áætlunum Seðlabankans og ályktað út frá þeim um óvissu í matinu á erlendu stöðunni. Áætlunin um hreina erlenda stöðu, afborgunarferill erlendra skulda, síðasta þjóðhagsspá bankans og fleiri upplýsingar eru notaðar til að gera áætlun um undirliggjandi greiðslujöfnuð fyrir næstu ár og leggja mat á mögulega endurfjármögnunarþörf. Þá er fjallað um horfur um þróun erlendu stöðunnar á næstu árum en í þeirri greiningu er hvorki fjallað um krónueignir erlendra aðila né búa fallinna fjármálafyrirtækja sem taka þarf á með sérstökum aðgerðum. Helstu niðurstöður eru að undirliggjandi hrein erlend staða, þ.e.a.s. hrein erlend staða án innlánsstofnana í slitameðferð og án Actavis en með reiknaðri niðurstöðu úr uppgjörum innlánsstofnana í slitameðferð og nokkurra annarra stórra félaga í slitameðferð í lok árs 2012 er neikvæð um 60% af landsframleiðslu. Nokkur óvissa er um þessa stærð en talið líklegt að hún verði á bilinu -80% til -35%. Miðað við fyrirliggjandi þjóðhagsspá mun hrein erlend staða í hlutfalli af landsframleiðslu batna um 18 prósentur fram til loka árs 2017 eða um rúmar 3 prósentur á ári. Þrátt fyrir nokkurn afgang á undirliggjandi viðskiptajöfnuði, einkum framan af spátímanum, nægir hann ekki til að standa undir þekktum afborgunum af erlendum lánum. Endurfjármögnun hluta þeirra er því forsenda stöðugs gengis. Hér er ekki fjallað um ýmsa mikilvæga þætti sem geta haft veruleg áhrif á greiðslujöfnuð og gætu valdið óstöðugleika án fjármagnshafta, svo sem krónugreiðslur til kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja og stöðu króna í eigu erlendra aðila (svokallaðar aflandskrónur).
Sérrit 9: Undirliggjandi erlend staða og greiðslujöfnuður
ATH: Þessi grein er frá 18. mars 2013 og er því orðin meira en 5 ára gömul.