Meginmál

Undanþágulistum og reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál breytt

ATH: Þessi grein er frá 6. mars 2015 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Undanþágulistum Seðlabanka Íslands, sem birtir eru á vefsíðu bankans á grundvelli 2. og 3. gr. reglna nr. 565/2014 um gjaldeyrismál, sbr. 4. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, hefur verið breytt. Takmarkast undanþágulistarnir nú við ríkisvíxla og eitt ríkisskuldabréf, nánar tiltekið RIKB 15 0408. Með þessari breytingu fækkar flokkum fjármálagerninga á undanþágulista.

Fjármagnshreyfingar á milli landa, vegna viðskipta með þá flokka fjármálagerninga sem tilgreindir eru á núgildandi lista, eru því enn undanþegnar takmörkunum laga um gjaldeyrismál að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greinir í 2. og 3. gr. reglna um gjaldeyrismál. Seðlabankinn áskilur sér rétt til að endurskoða gildandi undanþágulista í ljósi aðstæðna hverju sinni.

Samhliða breytingu á undanþágulistum Seðlabankans hefur reglum nr. 565/2014 verið breytt. Eigendum þeirra flokka skuldabréfa sem ekki njóta lengur undanþágu er heimilt að selja sína fjármálagerninga. Hins vegar verður ekki heimilt að fjárfesta í öðrum flokkum en þeim sem njóta undanþágu samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands.

Krónueignir sem oft er vísað til sem aflandskróna og bundnar eru af höftum nema um þessar mundir tæplega 15% af vergri landsframleiðslu. Tilgangur með ofangreindum breytingum er að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta. Þau felast m.a. í því að eigendum þessara krónueigna verða boðnir fjárfestingakostir sem draga verulega úr líkum á óstöðugleika við losun fjármagnshafta. Tímasetning þeirra breytinga á undanþágulistum sem nú eru kynntar miðar m.a. að því að varðveita skilvirkni skuldabréfamarkaða.

Reglur um breytingu á reglum nr. 565/2014 um gjaldeyrismál er að finna hér:

Undanþágulista, skv. 2. og 3. gr. reglna nr. 565/2014 um gjaldeyrismál, er að finna hér:

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699615.

Nr. 7/2015

3. mars 2015