Meginmál

Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs árið 2016

ATH: Þessi grein er frá 7. júlí 2016 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2016 var haldinn þriðjudaginn 5. júlí í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Á fundi ráðsins var farið yfir helstu áhættuþætti í fjármálakerfinu og greinargerð kerfisáhættunefndar til fjármálastöðugleikaráðs. Áhætta í fjármálakerfinu hefur lítið breyst frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs sem haldinn var í maí. Viðnámsþróttur einkageirans er enn að aukast og erlendar skuldir þjóðarbúsins dragast saman. Kerfisáhætta vegna útlána er lítið breytt. Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust lítillega á síðustu mánuðum. Kerfisáhætta vegna  gjalddagamisræmi og lausafjárstöðu er ekki talin mikil og að mestu óbreytt frá síðasta fundi.

Eftirfarandi mál voru á dagskrá: Ársfjórðungslegt mat á sveiflujöfnunarauka og árlegt mat á kerfislegu mikilvægi eftirlitsskyldra aðila í samræmi við opinbera stefnu um fjármálastöðugleika.

Mat á áhættuþáttum í fjármálakerfinu þykir ekki gefa tilefni til þess að breyta gildi sveiflujöfnunarauka og mælir ráðið því með því að hann sé óbreyttur frá síðasta fundi í 1%. Samþykkt var að Landsbankinn hf., Íslandsbanki hf., Arion banki hf. og Íbúðalánasjóður yrðu áfram skilgreindir sem kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar.

Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs verður 3. október 2016.