Meginmál

Vegna ummæla í Kastljósi

ATH: Þessi grein er frá 14. desember 2016 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Undir lok Kastljóssþáttar 7. desember sl. var fjallað um úttektir úr sjóðum, einkum Sjóði 9, dagana fyrir hrun bankanna í byrjun október 2008. Þar kom fram að úttektirnar hefðu sérstaklega verið skoðaðar af Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Skilja mátti af umfjölluninni að ekkert hefði verið gert með þessar úttektir  af hálfu Fjármálaeftirlitsins, sem er rangt og verður ekki komist hjá því að koma á framfæri leiðréttingu á því sem þar kom fram.

Hið rétta er að fljótlega eftir hrunið fór af stað umfangsmikil rannsókn vegna þessara úttekta hjá Fjármálaeftirlitinu sem endaði með því að kæra var send til embættis sérstaks saksóknara í mars 2009. Kæran var nokkuð ítarleg og fylgdu henni umfangsmikil gögn. Í lok kærubréfsins segir m.a.:

  Fjármálaeftirlitið telur að uppi sé rökstuddur grunur um að tilteknir aðilar hafi brotið gegn

  ákvæðum XIII kafla laga nr. 108/2007 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

  Það er mat Fjármálaeftirlitsins að meint brot falli undir að vera meiriháttar í skilningi 1. mgr.

  148. gr. laganna. Nauðsynlegt er að upplýsa hverjir bjuggu yfir innherjaupplýsingum á þeim

  tíma sem um ræðir.

  Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að mál þetta hljóti skjóta meðferð hjá sérstökum

  saksóknara þar sem um mikilvæga almannahagsmuni er að ræða.

Fjármálaeftirlitinu barst bréf frá embætti sérstaks saksóknara í mars 2012, þar sem tilkynnt var um að rannsókn málsins hefði verið hætt.