Formáli
Í þessu riti er fjallað um reynsluna af peningastefnunni hér á landi frá því að formlegt verðbólgumarkmið ásamt fljótandi gengi var tekið upp með samkomulagi ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands í mars 2001. Ástæða þess að ráðist er í úttekt á árangri peningastefnunnar nú er að á síðustu misserum hafa komið fram vísbendingar um betri virkni og meiri árangur hennar. Mikilvægt er að leggja mat á hvort bættur árangur peningastefnunnar að undanförnu stafar eingöngu af hagstæðum ytri aðstæðum eða beri vitni um varanlegri vatnaskil. Öllum þeim sem lögðu hönd á plóg er þakkað framlag þeirra, einkum aðalhagfræðingi bankans sem bar hitann og þungann af gerð ritsins. Efni og niðurstöður ritsins hafa verið ræddar í peningastefnunefnd og margvíslegar gagnlegar ábendingar bárust frá stjórnendum og starfsliði bankans.
Í riti Seðlabankans Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum frá árinu 2012 kom fram að reynslan af sjálfstæðri peningastefnu á Íslandi hafði verið blendin þar sem verðbólga hafði löngum verið töluvert meiri en samræmdist verðbólgumarkmiðinu og sveiflur í gengi krónunnar höfðu í ríkum mæli verið sveifluvaki í þjóðarbúskapnum fremur en sveiflujafnandi. Að vísu hefur tímabilið frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp að nokkru leyti litast af aðdraganda og eftirmálum verstu alþjóðlegu fjármálakreppu frá því á millistríðsárunum sem varð með skæðara móti hér á landi, m.a. vegna mistaka í innlendri hagstjórn og yfirvöku með fjármálakerfinu. Fyrstu árin eftir að verðbólgumarkmiðið var tekið upp virtist hinn nýi rammi peningastefnunnar reyndar skila þokkalegum árangri en er líða tók á áratuginn myndaðist mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og verðbólga fór yfir markmið.
Reynslan af aðdraganda fjármálakreppunnar hafði afhjúpað vissa veikleika í tilhögun peningamála bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Margvíslegar umbætur hafa því verið gerðar á framkvæmd peningastefnunnar hér á landi eftir kreppuna. Ákvörðunarferlið var bætt og gagnsæi aukið þegar fimm manna peningastefnunefnd var sett á fót með lagabreytingu í febrúar 2009. Seðlabankinn beitir nú fleiri stjórntækjum en áður, m.a. inngripum á gjaldeyrismarkaði, eins og bankinn boðaði í riti sínu Peningastefnan eftir höft frá árinu 2010. Þá er peningastefnan betur studd en áður af regluverki um fjármálakerfið, m.a. vegna þess að tillögum sem var að finna í riti bankans Varúðarreglur eftir fjármagnshöft frá árinu 2012 var hrint í framkvæmd. Með tilkomu fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar, sem bankinn á aðild að, hefur yfirvaka með áhættu í fjármálakerfinu batnað. Forsendur fyrir betra samspili peningastefnu og ríkisfjármálastefnu hafa einnig styrkst frá því sem var á árunum fyrir fjármálakreppuna með tilkomu þjóðhagsráðs sem Seðlabankinn á aðild að og bættum ramma fyrir mótun ríkisfjármálastefnu.
Að undanförnu hafa komið fram vísbendingar um að vatnaskil hafi orðið varðandi virkni og árangur peningastefnunnar. Árangurinn birtist m.a. í því að lengri tíma verðbólguvæntingar hafa verið í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið og virðast minna næmar en áður fyrir skammtímasveiflum í gengi og verðbólgu. Verðbólgu - markmiðið virðist því njóta meiri trúverðugleika sem er ein af meginástæðum þess að lægri vexti virðist þurfa en áður til að halda verðbólgu í námunda við markmið. Þá virðist sveigjanlegt gengi virka betur en áður til sveiflujöfnunar. Í ritinu eru þessar breytingar kortlagðar og metið í hve ríkum mæli megi rekja þær til breytinganna á framkvæmd peningastefnunnar eftir fjármálakreppuna. Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að þær eigi þar umtalsverðan hlut að máli.
Mikil umræða hefur átt sér stað um peningastefnuna á undanförnum misserum og á vegum stjórnvalda er unnið að úttekt á valkostum Íslendinga varðandi ramma peningastefnu á grundvelli sjálfstæðs gjaldmiðils og við skilyrði óheftra fjármagnshreyfinga. Mikilvægt er að umræða og stefnumótun á þessu sviði taki mið af bestu upplýsingum og rannsóknum. Eitt af markmiðum útgáfu rits þessa er að stuðla að því að svo verði.