Ýmislegt fleira ber að varast í samanburði sem þessum. Sem dæmi má nefna að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með fleirum en innlánsstofnunum. Í ársskýrslu FME 2017 kemur fram (bls. 24) að 56,5% af ráðstöfunartíma ársins 2016 var varið til eftirlits með lánastofnunum (sem er nokkuð víðara hugtak en innlánsstofnanir, en inniheldur þó ekki Seðlabankann). Hlutfallið lækkaði töluvert frá fyrra ári þegar það var 61,3%. Eftirlitsgjaldið endurspeglar hlutfallslegan ráðstöfunartíma síðastliðin þrjú heil ár. Þó svo að eftirlit með lánastofnunum sé veigamikill þáttur í starfsemi FME hefur vægi þess minnkað á síðustu árum. Rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins sem rekja má til innlánsstofnana hefur því að öllum líkindum lækkað meira en heildareignir þeirra, ef sambærileg staðfæring er viðhöfð.
Samanburður sem þessi, réttur eða rangur, skilar þó engu svari við spurningunni: hvað er eðlilegt umfang fjármálaeftirlits á Íslandi? Til að svara þeirri spurningu þarf ítarlega skoðun á starfsemi fjármálaeftirlitsins, lagaumhverfisins og starfsemi fyrirtækja sem starfa á hérlendum markaði. Þessir þrír þættir voru skoðaðir ítarlega í athugun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á framfylgni fjármálaeftirlits á Íslandi við kjarnareglur um bankaeftirlit (Basel Core principles for Effective Banking Supervision) árið 2014. Í ljós koma að framfylgni skorti að verulegu leyti í 13 flokkum af 29. Ítarleg matsskýrsla AGS hefur síðustu ár verið lykilviðmið í umbótaáætlun Fjármálaeftirlitsins og þess er vænst að í næstu úttekt, sem vonandi fer fram innan tveggja ára, verði árangurinn betri. Athugun AGS tók vissulega ekki til rekstrarkostnaðar. Þó er afar erfitt að ímynda sér að hægt verði að ljúka nauðsynlegum umbótum ef farið verður að óskum SFF um fækkun starfsmanna FME. FME leggur engu að síður áherslu á að gæta hagræðis í rekstri sínum og hefur samanburður á milli Norrænna eftirlita leitt í ljós að kostnaður á starfsmann er tiltölulega lágur hér á landi.
Ætla mætti að það væri sameiginlegt markmið Samtaka fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirlitsins, stjórnvalda og raun almennings alls, að efla traust á fjármálageiranum. Að mati Fjármálaeftirlitsins er skýr framfylgni við skilgreind alþjóðleg viðmið um bestu framkvæmd fjármálaeftirlits forsenda þess að hægt sé að byggja upp verðskuldað traust á hérlendum fjármálamarkaði. Uppbyggingu á skilvirku fjármálaeftirliti á Íslandi er ekki lokið en það hlýtur að vera forgangsmál.
Ef Samtök fjármálafyrirtækja telja, að mikilvægara sé að draga stórlega úr umfangi fjármálaeftirlits á Íslandi er rétt að samtökin rökstyðji mál sitt betur. Umfjöllun sem afmarkast við rekstrarkostnað og byggir á röngum og villandi samanburði, líkt og í nýbirtu ársriti samtakanna, dugar þar ekki til.