Meginmál

Ný rannsóknarritgerð um verðbólgu og trúverðugleika peningastefnu

ATH: Þessi grein er frá 9. mars 2018 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerð um verðbólguþróun undanfarinna ára og samspil hennar við traustari kjölfestu langtímaverðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Ritgerðin er á ensku og er gefin út í ritgerðarröðinni Rannsóknarritgerðir (Working Papers).

Í ritgerðinni er fjallað um mikilvægi bættrar kjölfestu langtímaverðbólguvæntinga við að skýra af hverju verðbólga hafi verið lítil og stöðug undanfarin ár þrátt fyrir kröftugan efnahagsbata. Mat á framsýnni Philips-kúrfu bendir til þess að kerfisbreyting hafi orðið á sambandi verðbólgu og lykil áhrifaþátta hennar árið 2012 og ólínulegar matsaðferðir gefa til kynna að kerfisbreytingin tengist hraðari lækkun langtímaverðbólguvæntinga en mælist með gögnum um verðbólguvæntingar á fjármálamarkaði. Lækkun verðbólguvæntinga er, ásamt mikilli lækkun innflutningsverðs, meginskýring hjöðnunar verðbólgu frá árinu 2012. Fyrrgreind kerfisbreyting er einnig mikilvæg skýring á því að spár hafa almennt ofspáð verðbólgu undanfarin ár. Þá eru lækkandi langtímaverðbólguvæntingar einnig mikilvæg ástæða þess að ekki þurfti efnahagssamdrátt til að framkalla þessa verðbólguhjöðnun eins og jafnan gerist.