„Ísland fyrir Íslendinga“: Áhrif fullveldis 1918 á efnahagslega þjóðernisstefnu
Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, fimmtudaginn 13. september kl. 15:00
Frummælandi: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Ágrip: Fram að heimsstyrjöldinni fyrri var Ísland opið land í efnahagslegu tilliti og í hópi þeirra Evrópulanda sem aðhylltust frjálsa verslun. Flytja mátti vörur, fjármagn og vinnuafl nánast óhindrað inn í landið. Í kjölfar styrjaldarinnar urðu straumhvörf í stjórnmálum og efnahagsmálum sem birtust m.a. í sókn verndarstefnu undir herópinu Ísland fyrir Íslendinga. Í fyrirlestrinum ræðir Guðmundur Jónsson um ástæður þessarar kúvendingar í átt að efnahagslegri þjóðernisstefnu, hvaða þátt stofnun fullveldis 1918 átti í henni og hvaða þýðingu hún hafði fyrir hagstjórn næstu áratuga.
Guðmundur Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur rannsakað ýmis viðfangsefni í stjórnmála- og hagsögu nútímans, m.a. hagvöxt og hlutverk ríkisvalds í hagþróun. Meðal rita hans eru „Þjóðernisstefna, hagþróun og sjálfstæðisbarátta“ (1995) og á síðasta ári kom út bókin Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 sem Guðmundur og fimm aðrir sagnfræðingar hafa skrifað. Bókarhluti Guðmundar nefnist „Smáþjóð á heimsmarkaði. Tímabilið 1914-2010“.