Meginmál

Peningamál 2021/1

83. rit. 3. febrúar 2021

Tengt efni

Myndagögn PM 2021/1

Powerpoint myndir í PM 2021/1

QMM Gagnagrunnur (.xlsx) 3. febrúar 2021

Kynningarefni aðalhagfræðings 3. febrúar 2021

Peningamál í hnotskurn

Alþjóðleg efnahagsumsvif tóku hratt við sér á þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar COVID-19-
tilfellum fækkaði en umsvif gáfu aftur eftir á þeim fjórða þegar smitum tók að fjölga á ný. Þrátt
fyrir versnandi horfur á fyrsta fjórðungi þessa árs er gert ráð fyrir kröftugum efnahagsbata í
helstu viðskiptalöndum er líða tekur á árið þegar víðtæk bólusetning gegn farsóttinni hefur
náðst.

Landsframleiðslan hér á landi jókst meira á þriðja ársfjórðungi í fyrra en spáð var í Peningamálum í nóvember. Þrátt fyrir þetta var hún enn 10,4% minni en á sama fjórðungi 2019. Endurskoðun Hagstofu Íslands á hagvaxtarþróun á fyrri hluta ársins leiddi til þess að árssamdrátturinn mældist meiri en gert var ráð fyrir í nóvember. Vísbendingar eru um að landsframleiðslan hafi haldið áfram að vaxa á fjórða ársfjórðungi og að samdrátturinn á árinu öllu hafi verið 7,7% en í nóvember var spáð að hann yrði 8,5%. Horfur fyrir þetta ár hafa jafnframt heldur batnað en þar vega lakari horfur um útflutning á móti bjartari horfum um innlenda eftirspurn. Spáð er 2,5% hagvexti á árinu öllu en að hann aukist enn frekar á næsta ári og verði 5,1% en hjaðni í 4,1% árið 2023.

Störfum hefur fækkað mikið frá því að farsóttin skall á. Skráð almennt atvinnuleysi mældist
tæplega 11% í desember og hafði aukist um 6,4 prósentur frá sama tíma árið áður. Samkvæmt
grunnspánni tekur atvinnuleysi að hjaðna um mitt þetta ár en það verður meira á öllum spátímanum en það var áður en faraldurinn hófst. Framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar farsóttarinnar náði hámarki á seinni hluta síðasta árs en full nýting framleiðsluþátta næst ekki fyrr en undir lok spátímans.

Verðbólga jókst á seinni hluta síðasta árs og mældist 3,6% að meðaltali á síðasta fjórðungi
ársins. Hún jókst enn frekar í janúar sl., m.a. vegna óhagstæðra grunnáhrifa frá fyrra ári, og
mældist 4,3%. Er það í fyrsta sinn síðan í desember 2013 að verðbólga fer yfir efri fráviksmörk
verðbólgumarkmiðsins. Þrátt fyrir þetta eru vísbendingar um að áhrif gengislækkunarinnar á
verðbólgu séu tekin að minnka og að verðbólga muni hjaðna hratt á næstunni enda töluverður
slaki í þjóðarbúinu. Þá hafa verðbólguvæntingar haldist tiltölulega stöðugar. Spáð er að verðbólga verði komin í markmið á fjórða fjórðungi þessa árs og að hún fari undir það á næsta ári.

Efnahagsþróunin mun að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst við að ráða niðurlögum
farsóttarinnar bæði hér á landi og alþjóðlega. Bólusetning hófst í lok síðasta árs og eins og í
nóvemberspá bankans er gert ráð fyrir að hún muni ná til meirihluta almennings um mitt ár,
bæði hér á landi og í helstu viðskiptalöndum. Þá gerir spáin ráð fyrir að núverandi fyrirkomulagi sóttvarnaraðgerða við landamæri verði í meginatriðum haldið óbreyttu þangað til. Um allar þessar forsendur er hins vegar mikil óvissa en farsóttin hefur víða verið í mikilli sókn og ný afbrigði veirunnar hafa komið fram. Þá hafa sums staðar verið hnökrar í dreifingu bóluefna og víða er óvissa um hversu víðtæk þátttaka almennings verður. Efnahagshorfur samkvæmt grunnspánni gætu því reynst of bjartsýnar. Efnahagsbatinn gæti hins vegar orðið hraðari og kröftugri ef betur gengur í baráttunni við farsóttina.