Tengt efni
Myndagögn PM 2021/2
Powerpoint myndir í PM 2021/2
QMM Gagnagrunnur (.xlsx) 19. maí 2021
Kynningarefni aðalhagfræðings 19. maí 2021
Vefútsending vegna vaxtaákvörðunar 19. maí 2021
Peningamál í hnotskurn
Alþjóðlegur hagvöxtur gaf eftir á síðasta ársfjórðungi í fyrra eftir að COVID-19-farsóttin tók
aftur að sækja í sig veðrið og vísbendingar eru um að samdráttur hafi orðið á ný á fyrsta fjórðungi þessa árs. Efnahagsumsvif í helstu viðskiptalöndum hafa þó reynst þróttmeiri en spáð var í febrúarhefti Peningamála og horfur fyrir þetta ár hafa batnað. Bólusetningu gegn farsóttinni miðar áfram og við bætast umfangsmiklar aðgerðir í ríkisfjármálum í Bandaríkjunum sem munu styðja við efnahagsbatann um allan heim.
Landsframleiðslan hér á landi jókst meira á milli fjórðunga á fjórða ársfjórðungi í fyrra en gert
hafði verið ráð fyrir í febrúarspá bankans. Þá reyndist samdrátturinn á fyrstu þremur fjórðungum ársins minni en fyrri áætlanir höfðu bent til. Samdráttur landsframleiðslu á árinu öllu var því minni en áætlað hafði verið eða 6,6% í stað 7,7% í febrúarspá bankans. Horfur fyrir þetta ár hafa jafnframt batnað en þar vega þyngst vísbendingar um kröftugri vöxt einkaneyslu. Á móti kemur að smitum fjölgar enn mikið víða um heim sem gerir það að verkum að nú er talið að ferðaþjónustan taki heldur hægar við sér en áður var spáð. Gert er ráð fyrir 3,1% hagvexti í ár en í febrúar var talið að hann yrði 2,5%. Eins og í febrúar er spáð liðlega 5% hagvexti á næsta ári en að nokkuð hægi á honum árið 2023.
Atvinnuleysi er tekið að minnka eftir að hafa náð hámarki í janúar sl. og vísbendingar eru um
áframhaldandi bata vinnuaflseftirspurnar. Spáð er að skráð atvinnuleysi án fólks á hlutabótum
verði liðlega 9% að meðaltali í ár en hjaðni smám saman er líður á spátímann þótt það verði
áfram meira í lok spátímans en það var áður en farsóttin hófst. Talið er að framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar farsóttarinnar hafi náð hámarki í lok síðasta árs. Slakinn er þó minni en hann var metinn í febrúarspá bankans og útlit er fyrir að hann verði horfinn seint á næsta ári sem er um ári fyrr en spáð var í febrúar.
Verðbólga jókst á seinni hluta síðasta árs og var komin í 4,2% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hún
jókst enn frekar í apríl sl. og mældist 4,6% sem er mesta verðbólga síðan snemma árs 2013.
Hún hefur því verið yfir 4% efri fráviksmörkum verðbólgumarkmiðsins allt þetta ár. Þetta er meiri verðbólga en spáð var í febrúar og hefur hún kerfisbundið reynst meiri en spáð var frá því að farsóttin skall á landinu. Innlend eftirspurn hefur staðið áfallið betur af sér en vænst var og verð olíu og annarrar hrávöru hækkað hraðar en gert var ráð fyrir. Einnig vegur þungt að kostnaðarhækkanir vegna framboðstruflana í kjölfar farsóttarinnar hafa verið vanmetnar. Nú er áætlað að verðbólga verði 3,8% á síðasta fjórðungi þessa árs og verði ekki komin í markmið bankans fyrr en um mitt næsta ár, um hálfu ári seinna en spáð var í febrúar.
Efnahagsþróunin mun að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst við að ráða niðurlögum
farsóttarinnar bæði hér á landi og alþjóðlega. Eins og í febrúar er gert ráð fyrir að meirihluti
almennings hér á landi verði orðinn bólusettur um mitt þetta ár. Gert er ráð fyrir að núverandi
fyrirkomulagi sóttvarnaraðgerða innanlands verði í meginatriðum viðhaldið út þennan ársfjórðung en í kjölfarið verði smám saman slakað á þeim. Líkt og í febrúar er gert ráð fyrir að núverandi fyrirkomulag sóttvarna við landamæri haldist í meginatriðum óbreytt út þriðja ársfjórðung en með auknum undanþágum eftir stöðu faraldursins í þeim löndum sem ferðamennirnir koma frá. Mikil óvissa er um allar þessar forsendur og mun framvinda efnahagsmála að töluverðu leyti ráðast af því hvernig til tekst við að ráða niðurlögum farsóttarinnar.
Rammagreinar
Rammagreinar | Bls. |
---|---|
Fráviksdæmi og óvissuþættir | 42 |
Efnahagssamdrátturinn í kjölfar farsóttarinnar | 49 |
Af hverju hefur hagvaxtargeta þjóðarbúsins minnkað? | 51 |
Hversu hratt mun atvinnuleysi minnka samhliða bata í þjóðarbúskapnum? | 59 |