Tengt efni
Myndagögn PM 2021/3
Powerpoint myndir í PM 2021/3
QMM Gagnagrunnur (.xlsx) 25. ágúst 2021
Kynning aðalhagfræðings 25. ágúst 2021
Peningamál í hnotskurn
Hagvöxtur í heiminum tók töluvert við sér á öðrum fjórðungi ársins eftir því sem bólusetningu
gegn COVID-19-farsóttinni miðaði áfram og slakað var á sóttvörnum. Horfur fyrir þriðja ársfjórðung eru þó lakari en gert var ráð fyrir í maíhefti Peningamála sem má að hluta rekja til
aukinnar útbreiðslu Delta-afbrigðis veirunnar. Hagvaxtarhorfur fyrir árið í heild eru samt sem
áður betri en þá var gert ráð fyrir. Á sama tíma hafa kröftugur bati alþjóðlegrar eftirspurnar og
viðvarandi framleiðslutruflanir vegna farsóttarinnar leitt til mikillar hækkunar hrávöruverðs og
flutningskostnaðar. Verðbólga hefur því víða aukist hratt undanfarna mánuði.
Landsframleiðslan hér á landi dróst meira saman á fyrsta fjórðungi þessa árs en gert hafði verið ráð fyrir í maíspá bankans. Kröftugur vöxtur virðist hins vegar hafa verið á öðrum fjórðungi ársins í takt við fækkun smita, slökun sóttvarnaraðgerða og fjölgun ferðamanna í landinu. Þótt smitum hafi fjölgað á ný er leið á sumarið eru horfur á áframhaldandi efnahagsbata á seinni hluta ársins. Spáð er 4% hagvexti á árinu öllu sem er 0,9 prósentum meiri vöxtur en í maí. Horfur eru á svipuðum hagvexti á næsta ári en að hann hjaðni í átt að langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins árið 2023.
Störfum er tekið að fjölga hratt og atvinnuþátttaka er orðin áþekk því sem hún var fyrir heimsfaraldurinn. Þá hefur lausum störfum fjölgað mikið og aukinn fjöldi fyrirtækja segist skorta starfsfólk. Atvinnuleysi hefur minnkað hraðar en spáð var í maí og er komið í ríflega 6% hvort sem horft er til vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands eða fjölda fólks á atvinnuleysisskrá. Talið er að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði komið á svipað stig og það var í aðdraganda farsóttarinnar í lok spátímans sem er töluvert undir því sem spáð var í maí. Slakinn í þjóðarbúinu minnkar því hraðar en þá var gert ráð fyrir.
Þótt töluvert hafi dregið úr áhrifum gengislækkunar krónunnar í fyrra hefur verðbólga haldist
yfir 4% frá áramótum og var 4,4% á öðrum fjórðungi ársins. Bati innlendrar eftirspurnar vegur
þar þungt en einnig mikil hækkun flutningskostnaðar og olíu- og hrávöruverðs á heimsmarkaði.
Verðbólga virðist þó hafa náð hámarki í vor og var komin í 4,3% í júlí. Þessi þróun er enn skýrari
ef húsnæðisliður vísitölu neysluverðs er undanskilinn eða horft til undirliggjandi verðbólgu sem var komin niður í 3,8% í júlí. Gert er ráð fyrir að mæld verðbólga haldist yfir 4% út árið og hjaðni því heldur hægar en spáð var í maí. Samkvæmt spá bankans verður verðbólga komin í markmið á þriðja ársfjórðungi á næsta ári sem er lítillega seinna en áður var talið.
Sem fyrr mun innlend og alþjóðleg efnahagsþróun að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst
við að hemja farsóttina. Þótt stór hluti þjóðarinnar hafi verið bólusettur er enn óvissa um virkni
bólusetningarinnar gegn Delta-afbrigði veirunnar og öðrum mögulegum afbrigðum hennar.
Grunnspá bankans gerir ráð fyrir að núverandi fyrirkomulag sóttvarna vari áfram um hríð en
að áhrif þeirra á innlend efnahagsumsvif verði tiltölulega takmörkuð. Það gæti þó breyst verði
bakslag í viðureigninni við farsóttina og herða þarf á sóttvörnum á ný eða ef almenningur tekur
í vaxandi mæli að halda sig til hlés af ótta við smit.