Meginmál

Peningamál 2022/2

Ritið Peningamál 2022/2 hefur verið birt hér á vef Seðlabanka Íslands. Í Peningamálum gerir Seðlabankinn grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Ritið kemur út fjórum sinnum á ári.

Í byrjun maí og byrjun nóvember er þar birt verðbólgu- og þjóðhagsspá ásamt ýtarlegri umfjöllun um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum. Í febrúar og ágúst er birt uppfærð verðbólgu- og þjóðhagsspá með styttri umfjöllun um þróun og horfur efnahags- og peningamála. Greiningin og spáin gegnir síðan mikilvægu hlutverki við mótun peningastefnunnar.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75%.

Vefútsending

Vefútsending vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar og útgáfu Peningamála

Tengt efni

Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt til hækkunar á verði orkugjafa og annarrar hrá- og matvöru. Hætt er við að átökin og hertar sóttvarnaraðgerðir í Kína valdi því einnig að lengur taki að vinda ofan af þeim framleiðsluhnökrum sem hrjáð hafa heimsbúskapinn undanfarin tvö ár. Efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum, sérstaklega í Evrópu, hafa því versnað nokkuð frá spá bankans í Peningamálum í febrúar. Verðbólga hefur jafnframt aukist mikið um allan heim og ekki mælst meiri í áratugi. Stríðsátökin leiða einnig til þess að alþjóðlegar verðbólguhorfur versna verulega

ótt mikil hækkun verðs sjávar- og álafurða vegi á móti neikvæðum viðskiptakjaraáhrifum hækkunar olíu- og hrávöruverðs, hafa efnahagshorfur hér á landi versnað frá því í febrúar. Lakari hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum valda því að spáð er minni vexti útflutnings auk þess sem meiri óvissa og hækkun aðfangaverðs og framfærslukostnaðar hægja á vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Á móti koma m.a. vísbendingar um nokkurn þrótt umsvifa það sem af er ári.
Spáð er að hagvöxtur í ár verði 4,6% í stað 4,8% í febrúarspá bankans. Líkt og þá er talið að þjóðarbúið starfi nú við full afköst og takmörkuð afkastageta mun líklega hægja á hagvexti er líða tekur á spátímann.

Störfum heldur áfram að fjölga hratt og eru orðin fleiri en þau voru fyrir farsóttina. Lausum störfum hefur einnig fjölgað mikið. Æ fleiri fyrirtæki segjast skorta starfsfólk og erlendu vinnuafli fjölgar hratt. Atvinnuleysi hefur minnkað hraðar en gert var ráð fyrir í febrúar og er talið vera minna en áætlað er að samræmist jafnvægi á vinnumarkaði.

Verðbólga mældist 7,2% í apríl og hefur ekki mælst meiri síðan árið 2010. Sem fyrr vegur hækkun húsnæðisverðs þungt en því til viðbótar koma áhrif mikilla hækkana alþjóðlegs olíu og hrávöruverðs. Þá gætir einnig áhrifa töluverðs innlends verðbólguþrýstings sem m.a. birtist í miklum hækkunum launa. Undirliggjandi verðbólga hefur því aukist hratt og mældist 5,3% í apríl. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldið áfram að hækka. Talið er að verðbólga haldi áfram að aukast og verði að meðaltali 8,1% á þriðja fjórðungi ársins sem er 2,8 prósentum meiri verðbólga en spáð var í febrúar. Ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3% fyrr en seint árið 2024. Lakari verðbólguhorfur má að mestu rekja til áhrifa stríðsátakanna í Úkraínu auk þess sem hækkun langtímaverðbólguvæntinga undanfarið hægir á hjöðnun hennar er frá líður.

Óvissa í efnahagsmálum hefur aukist mikið í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Átökin hafa valdið miklu umróti á alþjóðlegum hrávörumörkuðum og sett viðskiptasambönd og aðfangakeðjur í uppnám. Erfitt er að sjá fyrir hve djúpstæð og langvinn þau áhrif verða. Hið sama á við um áhrif átakanna á alþjóðlega fjármálamarkaði og útgjalda- og fjárfestingarákvarðanir heimila og fyrirtækja. Við bætist óvissa um áhrif hertra sóttvarnaraðgerða í Kína á mikilvægar aðfangakeðjur. Í ljósi hækkunar langtímaverðbólguvæntinga undanfarið er aukin hætta á því að verðbólguhorfur
í spá bankans séu of bjartsýnar. Þá gætu miklar launahækkanir í kjarasamningum næsta vetur aukið hættuna á víxlverkun launa og verðlags sem gæti valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi.

Rammagreinar

Í ritinu Peningamál 2022/2 má finna eftirfarandi þrjár rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.

RammagreinarBls.

Fráviksdæmi og óvissuþættir

42

Efnahagsleg áhrif innrásarinnar í Úkraínu

49