Sjálfbærniskýrsla Seðlabankans fyrir 2021 11. júlí 2022
Formáli yfirstjórnar
Með Parísarsamningnum hafa ríki heims sett sér það markmið að halda hlýnun jarðar innan við tvær gráður á Celsíuskvarða og eins nálægt 1,5 gráðum og hægt er. Ríkisstjórn Íslands hefur undirritað og fullgilt samninginn og tekur þátt í sameiginlegri vegferð Evrópusambandsins og Noregs sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030. Þá stefnir ríkisstjórn Íslands einnig að því að landið verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040.
Samkvæmt lögum um loftslagsmál ber Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu með skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun. Með stefnu sinni og markmiðum sem honum eru falin með lögum styður Seðlabanki Íslands við markmið stjórnvalda um sjálfbærni og mun bankinn þannig taka virkan þátt í að Ísland geti staðið við loftslagsskuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi.
Þótt meginábyrgðin á því að innleiða stefnu, tryggja fjármagn til að draga úr loftslagsáhættu og stuðla að skipulegri umbreytingu í kolefnishlutlaust hagkerfi liggi hjá öðrum stjórnvöldum eru viðfangsefni á verksviði Seðlabankans sem krefjast þess að hann leggi sitt af mörkum. Mikilvægt er að Seðlabankinn sýni gott fordæmi með því að færa eigin rekstur og starfsemi í átt að kolefnishlutleysi. Það er einnig í verkahring Seðlabanka Íslands að skilgreina, meta og vakta áhættuþætti og áhrif loftslagsbreytinga, bæði á á þanþol fjármálakerfisins og hagkerfið í víðu samhengi.
Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun okkar tíma enda ógna þær hagsæld, velferð og tilvist mannkyns. Áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar, lífríki og samfélag, ósjálfbær nýting náttúruauðlinda en einnig umbreyting í kolefnishlutlaust hagkerfi munu fela í sér áraun fyrir fjármálakerfið og hagkerfið í heild. Mikilvægt er að Seðlabanki Íslands og aðrir seðlabankar bregðist við þessum breytingum af festu innan síns ábyrgðarsviðs.
Sjálfbærniskýrslan inniheldur sjálfbærniupplýsingar úr rekstri bankans ásamt því að greina frá hvernig bankinn innleiðir loftslagsmál og sjálfbærni í kjarnastarfsemi sína. Þá er reifað hvernig bankinn miðlar upplýsingum og styður við innleiðingu á sjálfbærni fyrir þá starfsemi sem hann hefur eftirlit með.
Skýrsluna má nálgast hér: Sjálfbærniskýrsla 2021