Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,5%.
Tengt efni
Hægt hefur á alþjóðlegum hagvexti frá miðju síðasta ári og svartsýni um efnahagshorfur hefur aukist þrátt fyrir lækkun olíu- og hrávöruverðs undanfarið og minnkandi álag á alþjóðlegar aðfangakeðjur. Verðbólga hefur aukist áfram um allan heim og hraðar en vænst var. Horfur eru því á að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum verði minni í ár og á næsta ári en spáð var í Peningamálum í maí og að verðbólga verði meiri og þrálátari en þá var gert ráð fyrir.
Þrátt fyrir lakari alþjóðahorfur hafa hagvaxtarhorfur hér á landi batnað frá maíspá bankans. Bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga benda til þess að efnahagsumsvif hafi verið kröftugri á fyrsta fjórðungi ársins en gert hafði verið ráð fyrir í maí. Þar munar mest um mikinn vöxt neysluútgjalda heimila. Vísbendingar eru einnig um áframhaldandi mikinn vöxt einkaneyslu á öðrum fjórðungi ársins og virðist sem heimilin hafi dregið hraðar úr sparnaði en gert var ráð fyrir í
síðustu spá bankans. Þá fjölgaði ferðamönnum á landinu hraðar í sumar en spáð var í maí og innlendum fyrirtækjum virðist hafa tekist betur að leysa úr framboðshnökrum sem mynduðust í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,9% í ár sem er 1,3 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Líkt og þá er spáð að hagvöxtur á næstu tveimur árum verði um 2% á ári.
Störfum hélt áfram að fjölga hratt á öðrum ársfjórðungi og meðalvinnustundum fjölgaði milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2019. Heildarvinnustundum fjölgaði um 9,1% milli ára sem er mesta fjölgun frá upphafi vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands. Atvinnuleysi minnkaði áfram og hlutfall fyrirtækja sem segjast skorta starfsfólk hefur einungis einu sinni mælst hærra.
Verðbólga hefur aukist enn frekar og mældist 9,9% í júlí. Þótt hækkun húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs og hækkanir á alþjóðlegu olíu- og hrávöruverði vegi þungt er verðbólgan almenns eðlis: án húsnæðisliðar er hún 7,5% og undirliggjandi verðbólga mælist 6,5%. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldið áfram að hækka á flesta mælikvarða. Talið er að verðbólga eigi eftir að aukast enn frekar og verði komin í 10,8% á fjórða ársfjórðungi en hjaðni síðan smám
saman. Verðbólguhorfur hafa því versnað enn á ný sem endurspeglar töluvert kröftugri vöxt innlendrar eftirspurnar en gert var ráð fyrir í maí, horfur á hægari hjöðnun verðhækkana á húsnæðismarkaði og lakari verðbólguhorfur í helstu viðskiptalöndum.
Óvissa í efnahagsmálum hefur aukist vegna stríðsins í Úkraínu. Stríðsátökin hafa valdið miklu umróti á alþjóðlegum hrávörumörkuðum og sett viðskiptasambönd og aðfangakeðjur í uppnám. Erfitt er að sjá fyrir hve djúpstæð og langvinn þau áhrif verða og horfur gætu versnað enn frekar
lokist fyrir innflutning á jarðgasi frá Rússlandi til Evrópu. Þá hefur svartsýni heimila hér á landi og alþjóðlega aukist í kjölfar átakanna og erfitt er að meta að hve miklu leyti aukin svartsýni
mun lita útgjaldaákvarðanir þeirra þegar líður á árið og fram á næsta ár. Verðbólguhorfur í spá bankans gætu einnig reynst of bjartsýnar, sérstaklega ef fyrirtæki fara í vaxandi mæli að velta
kostnaðarhækkunum út í verðlag og ef víxlverkun launa og verðlags fer af stað sem gæti valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi.