Meginmál

Fjármálastöðugleiki 2022/2

Í Fjármálastöðugleika er tvisvar á ári birt yfirlit yfir stöðu fjármálakerfisins, þ.e. um styrk þess og hugsanlega veikleika og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga.

Tengt efni

Fjármálastöðugleiki í hnotskurn

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað á síðustu mánuðum meðal annars vegna áhrifa stríðsátaka í Úkraínu, framhaldandi farsóttaraðgerða og mikillar verðbólgu sem dregið hefur úr kaupmætti almennings. Stjórnvöld hafa dregið úr farsóttartengdum stuðningi við heimili og fyrirtæki, seðlabankar hafa brugðist við þrálátri verðbólgu með hækkun vaxta og aðhald þjóðhagsvarúðartækja hefur verið hert. Saman hægir þetta á alþjóðlegum efnahagsbata sem meðal annars hefur komið fram í eignaverði. Ísland hefur ekki farið varhluta af aukinni alþjóðlegri verðbólgu, þó áhrifa af hærra orkuverði gæti í töluvert minna mæli hér á landi en víða erlendis. Hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár eru enn góðar hér á landi en búist er við að það dragi úr hagvexti á næsta ári.

Íbúðaverð er hátt á nær alla mælikvarða. Fyrstu merki eru um að heldur sé að hægja á markaðnum. Eignum á sölu hefur fjölgað, kaupsamningum fer fækkandi og meðalsölutími hefur lengst. Mikil hækkun íbúðaverðs umfram ákvarðandi þætti á síðustu mánuðum bendir til ójafnvægis á markaðnum og líkur á verðleiðréttingu hafa aukist. Leiguverð hefur á sama tíma lækkað að raunvirði en viðbúið er að aukin eftirspurn eftir leiguhúsnæði muni setja þrýsting á hækkun leiguverðs á komandi misserum.

Heimilin nýttu sér lágt vaxtastig í farsóttinni til að endurfjármagna útistandandi skuldir og fjárfesta einkum í fasteignum og ökutækjum. Raunvöxtur skulda heimila náði hámarki á öðrum og þriðja fjórðungi síðasta árs þegar hann mældist tæplega 7% milli ára. Verulega hefur nú hægt á vextinum og mælist hann lítillega neikvæður í júlí sl. Skuldsetning heimila mæld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eða landsframleiðslu er samt lág í sögulegu samhengi. Skuldsetningin ætti því að vera flestum heimilum viðráðanleg. Þó er ljóst að hærra vaxtastig og aukin verðbólga þyngir
greiðslubyrði heimila og viðbúið er að vanskil aukist.

Staða stóru viðskiptabankanna þriggja er sterk. Arðsemi þeirra af reglulegum tekjum hefur aukist á síðustu árum, kostnaðarhlutföll lækkað og dregið hefur úr vanskilum heimila og fyrirtækja. Batnandi eignagæði bankanna endurspegla skjótan viðsnúning í efnahagslífinu á þessu ári. Eiginfjárhlutföll bankanna eru há og svigrúm er til að stækka eiginfjárgrunninn með útgáfu eiginfjárgerninga. Álagspróf Seðlabankans fyrir árið 2022 sýnir að bankarnir búa yfir miklum viðnámsþrótti til að bregðast við ytri áföllum í efnahagslífinu og hafa getu til að styðja við heimili og fyrirtæki í gegnum slík áföll.

Lausafjárhlutföll stóru viðskiptabankanna þriggja hafa lækkað á síðustu mánuðum og eru nú álíka og þau voru fyrir útbreiðslu farsóttarinnar. Lausafjárstaða þeirra allra er nokkuð yfir lágmörkum Seðlabankans. Aukin samkeppni er um innlán og markaðsaðstæður til skuldabréfaútgáfu bæði hér á landi og erlendis hafa verið krefjandi á síðustu mánuðum. Vaxtaálag á erlenda markaðsfjármögnun bankanna hefur farið hækkandi og endurfjármögnunaráhætta bankanna í
erlendum gjaldmiðlum hefur aukist.

Netárásum og tilraunum til slíkra árása fjölgar stöðugt. Til að stuðla að samfelldum rekstri og tryggja öryggi kerfa þarf að efla enn frekar viðbúnað fjármálafyrirtækja og rekstraraðila fjármálainnviða við slíkum árásum. Þar gegna samhæfðar aðgerðaráætlanir lykilhlutverki. Samhliða þessu þarf að vinna hratt og örugglega að varaleiðum sem hægt er að grípa til ef á þarf að halda. Það verkefni krefst aðkomu fjármálafyrirtækja, rekstraraðila fjármálainnviða, Seðlabanka Íslands og stjórnvalda.