Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að hækka gildi sveiflujöfnunarauka úr 2% í 2,5% af innlendum áhættugrunni
Vefútsending
Vefútsending vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar og útgáfu Fjármálastöðugleika
Tengt efni
Í hnotskurn
Verðbólga hefur reynst þrálát, bæði hér á landi og erlendis, og hafa seðlabankar brugðist við með hækkun vaxta. Á sama tíma hefur aðhald þjóðhagsvarúðartækja verið hert. Saman hægir þetta á hagkerfum heimsins sem meðal annars hefur komið fram í lækkandi eignaverði. Sömu áhrifa gætir hér á landi en þó í minna mæli þar sem helstu útflutningsatvinnuvegir Íslands hafa enn ekki orðið fyrir miklum áhrifum. Hagvaxtarhorfur hafa þó versnað og búist er við að dragi nokkuð úr hagvexti á þessu ári.
Áfram hefur dregið úr skuldavexti heimila og mælist hann nú lítillega neikvæður að raungildi. Á móti hefur skuldavöxtur fyrirtækja heldur sótt í sig veðrið, þó raunvöxtur hans sé enn mjög takmarkaður. Skuldsetning einkageirans er lítil í sögulegu samhengi. Hærra vaxtastig og aukin verðbólga þyngja þó greiðslubyrði en á móti hafa laun hækkað, atvinnustig er hátt og hagvöxtur verið mikill. Greiðsluerfiðleikar í fjármálakerfinu eru enn mjög takmarkaðir og fjármálafyrirtæki eiga að geta boðið upp á úrræði til lækkunar á greiðslubyrði ef til aukinna vanskila kemur.
Heldur hefur dregið úr ójafnvægi á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum, samhliða því að verð á markaðnum hefur lækkað lítillega. Íbúðaverð er þó enn hátt á nær alla mælikvarða og er enn töluvert yfir langtímaleitni. Eignum á sölu hefur fjölgað, kaupsamningum fer fækkandi og meðalsölutími hefur lengst. Leiguverð hefur hækkað nokkuð á síðustu mánuðum en viðbúið er að aukin eftirspurn á leigumarkaði, meðal annars vegna aðflutts vinnuafls, muni áfram setja þrýsting á hækkun þess á komandi misserum. Mikil velta og verðhækkanir hafa verið á markaði með atvinnuhúsnæði. Lítið framboð og töluverð eftirspurn styðja við verðhækkun á markaðnum.
Staða stóru viðskiptabankanna þriggja er sterk. Eiginfjárhlutföll þeirra eru há, arðsemi af reglulegum rekstri hefur aukist, kostnaðarhlutföll lækkað og vanskil heimila og fyrirtækja í lágmarki. Bankarnir búa því yfir miklum viðnámsþrótti gagnvart ytri áföllum í efnahagslífinu. Það svigrúm geta þeir meðal annars nýtt til að styðja við lántakendur, heimili og fyrirtæki, í gegnum áföll. Bankarnir þurfa að vera undir það búnir að meðvindur síðustu ára geti snúist í mótvind.
Lausafjárhlutföll bankanna hafa lítið breyst á síðustu mánuðum. Lausafjárstaða þeirra allra er nokkuð yfir lágmarkskröfum Seðlabankans. Markaðsfjármögnun bankanna bæði hér á landi og erlendis hefur verið takmörkuð á síðustu mánuðum og aukin samkeppni er um innlán. Vaxtaálag á erlenda markaðsfjármögnun þeirra hefur lækkað nokkuð frá áramótum og hafa bankarnir nýtt sér það á síðustu dögum með útgáfum erlendis, sem hefur dregið úr endurfjármögnunaráhættu þeirra í erlendum gjaldmiðlum.
Netárásum og tilraunum til slíkra árása fjölgar stöðugt. Til að standa vörð um samfellda þjónustu fjármálafyrirtækja og tryggja öryggi fjármálainnviða þarf að efla enn frekar viðbúnað fjármálafyrirtækja og rekstraraðila fjármálainnviða vegna netógna. Þar gegna samhæfðar aðgerðaáætlanir lykilhlutverki. Seðlabankinn mun á næstu mánuðum bjóða kerfislega mikilvægum aðilum að taka þátt í stöðluðum prófunum til að kanna viðnámsþrótt þeirra gegn netárásum. Tryggja þarf viðnámsþrótt kerfisins, sérstaklega greiðslumiðlunar. Það verkefni er á borði fjármálafyrirtækja, rekstraraðila fjármálainnviða, Seðlabanka Íslands og stjórnvalda.
Rammagreinar
Í ritinu Fjármálastöðugleiki 2023/1 má finna eftirfarandi sex rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.
Rammagrein | Bls. |
---|---|
Greiðslubyrði heimila | 29 |
Mælikvarði á þróun fjármálaskilyrða á Íslandi | 32 |
Áhrif loftslagsáhættu á útlánaáhættu íslensku bankanna | 35 |
Nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana | 49 |
Innlend óháð smágreiðslulausn | 50 |
TIBER-IS | 51 |