Meginmál

Kostnaður við smágreiðslumiðlun 2023

Seðlabanki Íslands hefur birt fyrsta ritið í nýrri ritröð sem fengið hefur nafnið Kostnaður við smágreiðslumiðlun. Ritið mun koma út einu sinni á ári.

Í ritinu gerir Seðlabankinn grein fyrir því hvaða greiðslumiðlar og greiðsluþjónusta er helst notuð til greiðslu á vöru og þjónustu hérlendis og til millifærslu fjármuna á annan einstakling, bæði innanlands og yfir landamæri. Í ritinu er einnig birt yfirlit yfir gjöld sem þátttakendur í virðiskeðju greiðslumiðlunar (heimili, greiðsluþjónustuveitendur og sölu- og þjónustuaðilar) greiða öðrum þátttakendum fyrir notkun greiðslumiðla og greiðsluþjónustu. Þessar upplýsingar verða birtar árlega. Á tveggja til þriggja ára fresti verða jafnframt birtar niðurstöður úr mati Seðlabankans á samfélagskostnaði við smágreiðslumiðlun og er það gert í ritinu sem kom út í dag. Markmið gagnasöfnunar er að varpa ljósi á kostnað við notkun ólíkra greiðslumiðla og greiðsluþjónustu og meta hvort tiltekinn greiðslumiðill eða greiðsluþjónusta sé hagkvæmari í rekstri en önnur fyrir samfélagið.

Seðlabankinn hefur áður lagt mat á samfélagskostnað í greiðslumiðlun, þ.e. árin 2016 og 2018, og birtust niðurstöðurnar í ritröðinni Fjármálainnviðir en útgáfu hennar hefur verið hætt.

Tengt efni

Í hnotskurn

Með aukinni hagræðingu í rafrænni greiðslumiðlun og auknum fjölda færslna hefur kostnaður við greiðslumiðlun fyrir samfélagið lækkað frá síðustu mælingu árið 2018. Áætlaður samfélagskostnaður (innri kostnaður) af notkun greiðslumiðla hér á landi var um 47 ma.kr. á verðlagi þess árs eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Hver debetkortafærsla kostar samfélagið minna en hver kreditkortafærsla. Á móti hefur kostnaður vegna hverrar færslu reiðufjár hækkað, einkum vegna þess að dregið hefur úr notkun þess á síðustu árum. Þegar litið er til allrar smágreiðslumiðlunar er einingakostnaður fyrir samfélagið mestur í greiðsluþjónustu en þar er m.a. meðtalinn kostnaður við rekstur og viðhald á greiðslubúnaði.

Greiðsluþjónustuveitendur (s.s. bankar, sparisjóðir og færsluhirðar) bera hæsta kostnað í greiðslumiðlun en þeir hafa líka tekjur af henni. Tap var af rekstri reiðufjárúttekta og greiðsluþjónustu í greiðslumiðlun hjá bönkum og sparisjóðum á árinu 2021 en hagnaður var af rekstri greiðslukorta hjá þeim og færsluhirðum. Mestur var hagnaðurinn vegna kreditkorta. Áætlað er að hagnaður af hverri færslu kreditkorta hafi verið um 122 kr. að meðaltali samanborið við 8 kr. hagnað af hverri færslu debetkorta.

Samfélagskostnaður (innri kostnaður) jókst hjá sölu- og þjónustuaðilum frá síðustu mælingu 2018 um tæpan milljarð kr., m.a. vegna aukins launakostnaðar og fjárfestingar í nýjum greiðslubúnaði. Stærsti gjaldaliður sölu- og þjónustuaðila er greiðslukortaþóknun (e. merchant service charge, MSC) sem er greidd færsluhirðum og er hluti af ytri kostnaði þeirra. Sá kostnaður nam tæplega 11 ma.kr. Kostnaður af hverri debetkortafærslu var umtalsvert lægri en af hverri kreditkortafærslu eða um 55 kr. að meðaltali á móti 103 kr. Sölu- og þjónustuaðilar greiða um 0,6% í þóknun af hverri debetkortafærslu að meðaltali og 0,9% af hverri kreditkortafærslu. Hlutfallið var um 0,9% að meðaltali ef greitt var með erlendu greiðslukorti, óháð tegund greiðslukorts.

Heimilin telja að það taki skemmri tíma að greiða með greiðslukorti á sölustöðum nú en árið 2018. Það lækkar metinn kostnað heimila við greiðslumiðlun. Skilvirkni hefur því aukist við greiðslukortanotkun að þeirra mati. Heimilin telja að það hafi tekið lengri tíma að nota reiðufé á árinu 2021 en á árinu 2018 til að greiða fyrir vöru og þjónustu. Dregið hefur því úr skilvirkni við notkun reiðufjár að þeirra mati. Stærstur hluti kostnaðar heimila við greiðslumiðlun eru gjöld sem þau greiða fyrir notkun á greiðslumiðlum, aðallega fyrir notkun á greiðslukortum, en áætlað er að heildarkostnaður þeirra hafi numið um 10 ma.kr. á árinu 2021. Hver debetkortafærsla kostaði heimilin um 45 kr. að meðaltali en hver kreditkortafærsla um 91 kr. Þau gjöld sem sölu- og þjónustuaðilar greiða greiðsluþjónustuveitendum leggjast óbeint á heimilin í gegnum verðlagningu á vöru og þjónustu.

Kostnaður við að millifæra fjármuni yfir landamæri er hár í samanburði við innlenda greiðsluþjónustu. Áætlað er að gjöld af greiðslum yfir landamæri hafi numið rúmlega 760 m.kr. á árinu 2021, þar af um 510 m.kr. vegna millifærslna og um 250 m.kr. vegna peningasendinga. Hver rafræn millifærsla yfir landamæri kostaði að meðaltali um 1.921 kr. og 3.242 kr. að meðaltali ef um var að ræða peningasendingu.