Formáli seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra
Í samantekt sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) kveður enn á ný við kunnuglegan tón. Í skýrslunni kemur fram að áhrif mannsins á umhverfi sitt hafa leitt til hlýnunar loftslags um 1,1 gráðu frá seinni hluta 19. aldar en nú er svo komið að hvert gráðubrot í hlýnun hefur stigmagnandi áhrif, ekki bara á veðurfar og uppskeru, heldur einnig á lífsskilyrði og velferð milljóna manna um allan heim.
Eitt meginmarkmið Parísarsáttmálans er að takmarka röskun mannkyns á loftslagi jarðar í þeim tilgangi að takmarka hnattræna hlýnun eins nálægt 1,5 gráðum og hægt er. Stjórnvöld, atvinnulíf og félagasamtök víða um heim hafa sett sér skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsáttmálann. Samkvæmt lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 ber Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu með skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun. Seðlabanki Íslands er þar engin undantekning en samkvæmt umhverfis- og loftslagsstefnu bankans skuldbindur hann sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fram til ársins 2030 miðað við árið 2019.
Sjálfbærniskýrsla Seðlabanka Íslands kemur nú út í annað sinn. Í henni er fjallað um aðgerðir Seðlabanka Íslands í sjálfbærni- og loftslagsmálum árið 2022, sjálfbærniupplýsingar úr rekstri bankans og hvernig hann innleiðir sjálfbærni í kjarnastarfsemi sína. Skýrslunni er ætlað að vera upplýsandi um aðgerðir bankans en einnig hluti af ábyrgðarskilum bankans gagnvart markmiðum sínum í loftslags- og sjálfbærnimálum.
Enn er mikið verk að vinna í loftslags- og sjálfbærnimálum, líkt og sjötta matsskýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gefur til kynna. Þótt meginábyrgðin á því að innleiða stefnu, tryggja fjármagn til að draga úr loftslagsáhættu og stuðla að skipulegri umbreytingu í kolefnishlutlaust hagkerfi og sjálfbært samfélag liggi hjá öðrum stjórnvöldum er mikilvægt að Seðlabanki Íslands leggi sitt af mörkum á sínu ábyrgðarsviði