Tengt efni
Í hnotskurn
Í litlu og opnu hagkerfi er mikilvægt að heimili, fyrirtæki og fjármálakerfið búi yfir nægum viðnámsþrótti gagnvart sveiflum í greiðslujöfnuði. Það kom berlega í ljós þegar COVID-19-faraldurinn breytti ytri aðstæðum fyrirvaralaust og hafði í för með sér töluverða aðlögun í þjóðarbúskapnum. Þegar faraldurinn skall á var staða þjóðarbúsins sterk. Gjaldeyrisforðinn var stór og skuldir hins opinbera jafnt sem einkaaðila tiltölulega lágar, bæði sögulega og í alþjóðlegum samanburði. Það gerði stjórnvöldum mun auðveldara en ella að milda áhrif faraldursins á efnahagslífið og fjárhag fyrirtækja og heimila
Samfelldur afgangur sem hafði verið á viðskiptum Íslands við útlönd frá 2009 minnkaði mikið árið 2020 og snerist í halla árið 2021. Halli á viðskiptajöfnuði felur í sér að sparnaður þjóðarbúsins hafi verið minni en fjárfesting. Töluvert dró úr þjóðhagslegum sparnaði frá árinu 2019 til ársins 2021. Þar hafði mest áhrif 30% samdráttur í útflutningi árið 2020 og aðgerðir í ríkisfjármálum. Þegar horfið var frá sóttvarnartakmörkunum jukust útflutningstekjur á ný, atvinnuleysi minnkaði ört, og neysla jókst hröðum skrefum, m.a. í ljósi mikils sparnaðar sem heimilin höfðu byggt upp í faraldrinum. Áhrif faraldursins á fjárfestingu voru minni hér á landi en í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hækkaði er leið á árið 2021 og hélst hátt árið 2022.
Um mitt ár 2023 var hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um 29% af landsframleiðslu og erlendar skuldir þjóðarbúsins um 100% af landsframleiðslu. Leita þarf aftur til síðustu aldamóta að lægra skuldahlutfalli. Sterk erlend eignastaða þjóðarinnar má meðal annars rekja til lífeyrissjóðakerfisins sem er hlutfallslega það næststærsta í OECD-ríkjunum með eignir sem námu 186% af landsframleiðslu í lok árs 2022. Fjárfestingarþörf lífeyrissjóða er mikil og hafa innlendir atvinnuvegir því ekki þurft að sækja lánsfé erlendis í eins ríkum mæli og ella.
Dregið hefur úr vilja til áhættutöku eftir fjármálakreppuna og peninga- og þjóðhagsvarúðarstefna hefur verið aðhaldssamari hér á landi en í flestum öðrum þróuðum ríkjum. Undanfarið
ár hafa erlend fjármögnunarkjör versnað mikið. Miklar vaxtahækkanir seðlabanka og aukin óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur höfðu í för með sér nokkurn óróa um allan heim og í ár. Vaxtaálag á skuldabréf banka hækkaði jafnframt talsvert undir lok árs 2022. Af þeim sökum dró tímabundið úr útgáfum erlendra markaðsskuldabréfa þeirra. Fjármálaleg skilyrði á alþjóðlegum mörkuðum bötnuðu þegar kom fram á árið í ár og vaxtaálag lækkaði sem innlendir aðilar hafa nýtt sér til að endurfjármagna erlendar skuldabréfaútgáfur. Því hefur dregið úr endurfjármögnunaráhættu þjóðarbúsins til skamms tíma litið. Auðseljanlegar krónueignir erlendra aðila eru einnig litlar og því er áhætta tengd þeim lítil.
Í sviðsmynd greiðslujafnaðar sem dregin er upp fyrir 2023 og 2024 er búist við lítilsháttar viðskiptahalla við útlönd á þessu ári og því næsta. Gert er ráð fyrir að hann verði fjármagnaður með innstreymi fjármagns. Fjármagnsjöfnuður án breytinga á gjaldeyrisforða snýst því yfir í að vera neikvæður. Munar þar mest um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og vænta lántöku ríkissjóðs sem leiða til þess að erlendar skuldir aukast. Gert er ráð fyrir að hrein staða við útlönd verði 25% af landsframleiðslu í árslok 2024 og gert er ráð fyrir að gjaldeyrisforðinn sem stóð í 763 ma.kr. í lok september sl. verði áfram rúmur mældur í hlutfalli við helstu forðaviðmið. Nokkur óvissa er ávallt um þróun gjaldeyrisflæðis og ytri stöðu þjóðarbúsins og ráðast horfurnar að miklu leyti af efnahagsþróuninni. Aðgengi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum gæti einnig versnað á nýjan leik og álag á erlenda markaðsfjármögnun hækkað.