Ágrip
Frá árinu 1980 hefur Seðlabanki Íslands sett reglur um lágmarksbinditíma verðtryggðra innlána og lágmarkslánstíma verðtryggðra útlána. Í nýjum reglum Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár sem tóku gildi 1. júní 2023 voru þessi ákvæði felld niður. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er því heimilt að ákveða sjálfir lánstíma verðtryggðra útlána og binditíma verðtryggðra innlána. Einnig var fellt niður ákvæði sem heimilaði að miða verðtryggingu lánsfjár við hlutabréfavísitölu. Í grein þessari er fjallað um ástæður þess að Seðlabankinn ákvað að gera ofangreindar breytingar. Niðurstaða höfunda er að þær aðstæður sem urðu til þess að Seðlabankinn setti reglur um lágmarksbinditíma verðtryggðra innlána og lágmarkslengd verðtryggðra útlána í kjölfar svokallaðra Ólafslaga séu ekki lengur fyrir hendi. Meðal annars er áhætta af verðtryggingarmisræmi í efnahag banka og sparisjóða mun minni en áður og nýjar leiðir til að takmarka hana hafa opnast.