Meginmál

Vettvangur – vefrit um efnahags- og fjármál hefur göngu sína

Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýtt rit, Vettvang - Vefrit um efnahags- og fjármál. Þar eru birtar höfundarmerktar greinar. Í fyrsta ritinu er fjallað um nýlegar breytingar á reglum Seðlabankans um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Höfundar eru Arnór Sighvatsson, Lúðvík Elíasson, Margrét Valdimarsdóttir, Ragnar Árni Sigurðarson, Tómas Sigurðsson og Örn Hauksson.

Í Vettvangi eru birtar höfundarmerktar greinar eftir starfsfólk Seðlabankans sem eiga að höfða til breiðs lesendahóps. Markmið útgáfunnar er að miðla á aðgengilegan hátt þekkingu er varðar helstu málefnasvið Seðlabankans. Skoðanir sem fram koma í greinum sem birtast í Vettvangi eru á ábyrgð höfunda og endurspegla ekki endilega afstöðu Seðlabanka Íslands.

Ágrip

Frá árinu 1980 hefur Seðlabanki Íslands sett reglur um lágmarksbinditíma verðtryggðra innlána og lágmarkslánstíma verðtryggðra útlána. Í nýjum reglum Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár sem tóku gildi 1. júní 2023 voru þessi ákvæði felld niður. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er því heimilt að ákveða sjálfir lánstíma verðtryggðra útlána og binditíma verðtryggðra innlána. Einnig var fellt niður ákvæði sem heimilaði að miða verðtryggingu lánsfjár við hlutabréfavísitölu. Í grein þessari er fjallað um ástæður þess að Seðlabankinn ákvað að gera ofangreindar breytingar. Niðurstaða höfunda er að þær aðstæður sem urðu til þess að Seðlabankinn setti reglur um lágmarksbinditíma verðtryggðra innlána og lágmarkslengd verðtryggðra útlána í kjölfar svokallaðra Ólafslaga séu ekki lengur fyrir hendi. Meðal annars er áhætta af verðtryggingarmisræmi í efnahag banka og sparisjóða mun minni en áður og nýjar leiðir til að takmarka hana hafa opnast.