Meginmál

Kostnaður við smágreiðslumiðlun 2024

Seðlabanki Íslands safnar árlega gögnum um þjónustugjöld sem eru lögð á í greiðsluþjónustu og við notkun helstu greiðslumiðla hér á landi. Í ritinu Kostnaður við smágreiðslumiðlun er gerð grein fyrir niðurstöðum úr mati Seðlabankans á þjónustugjöldum sem heimili og sölu- og þjónustuaðilar greiddu á árinu 2022 bönkum, sparisjóðum, færsluhirðum og öðrum sem gefa út greiðslumiðla hér á landi. Einnig er gerð grein fyrir tekjum fyrirtækja í greiðslumiðlun og gjöldum sem fyrirtækin greiddu á sama ári.

Tengt efni

Í hnotskurn

Þjónustugjöld sem heimili greiða fyrir notkun á greiðslumiðlum eru tvenns konar: Annars vegar bein þjónustugjöld til útgefenda og þjónustuaðila greiðslumiðla og hins vegar óbein þjónustugjöld til færsluhirða þegar greiðslukort eru notuð hjá söluaðilum. Áætlað er að heimilin á Íslandi hafi greitt um 12,3 ma.kr. í bein þjónustugjöld á árinu 2022 þar af 6,5 ma.kr. fyrir notkun innlendra greiðslumiðla innanlands og 5,8 ma.kr. fyrir notkun innlendra greiðslumiðla erlendis. Að raunvirði hækkuðu gjöldin um 4,7% frá árinu á undan. Óbeinu þjónustugjöldin námu um 14,4 m.kr. en það eru gjöld sem söluaðilar greiða beint til færsluhirða vegna greiðslukortanotkunar og eru innheimt í gegnum vöruverð.

Að raunvirði hækkuðu beinu þjónustugjöldin á debetkort um 13% og kreditkort um 8% sem rekja má til almennrar hækkunar verðlags og aukinnar neyslu erlendis. Töluverður munur er á kostnaði á hverja færslu milli debet- og kreditkorta, eins og fram hefur komið í fyrri greiningum Seðlabankans á kostnaði við smágreiðslumiðlun. Hver færsla með innlendu debetkorti innanlands kostaði um 20 kr. að meðaltali fyrir hvert heimili en kostaði um 118 kr. að meðaltali ef innlent debetkort var notað erlendis. Hver færsla með innlendu kreditkorti innanlands kostaði að meðaltali um 51 kr. en hver færsla erlendis um 177 kr. að meðaltali. Gjöld heimila af reiðufjárþjónustu hækkuðu milli ára og gjöld af greiðsluþjónustu voru nánast óbreytt.

Stærsti hluti gjalda fyrir notkun á innlendu greiðslukorti erlendis er gengisálag og er áætlað að heimilin hafi greitt um 4,4 ma.kr. í slíkan kostnað á árinu 2022 eða um 138 kr. að meðaltali á hverja færslu.

Gjöld sem söluaðilar greiddu til fyrirtækja í greiðslumiðlun hækkuðu töluvert milli áranna 2021 og 2022 eða um 23,5% að raunvirði. Hækkunina má helst rekja til aukinnar veltu kreditkorta og aukins færslufjölda erlendra greiðslukorta. Hver debetkortafærsla kostaði söluaðila um 50 kr. að meðaltali en hver kreditkortafærsla um 142 kr.

Áætlað er að hreinar tekjur fyrirtækja í greiðslumiðlun sem kostnaðarmatið nær yfir hafi numið um 32,6 ma.kr. á árinu 2022 og hækkuðu tekjurnar um 37% að raunvirði frá árinu á undan, einkum vegna þjónustugjalda á greiðslukortum.