Samtals 41 aðili úr íslenskum fjármálaheimi hafa farið í gegnum hæfismat Fjármálaeftirlitsins frá því í nóvember 2005 en þá hóf FME að prófa alla nýja framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga, auk vátryggingamiðlara. Áður hafi FME eingöngu framkvæmt slíkt mat á vátryggingamarkaði. Jafnframt er slíkt mat framkvæmt við veitingu nýrra starfsleyfa og eftir atvikum við breytingar á þegar veittum starfsleyfum.
20% fall í fyrstu tilraun
Ríkar kröfur eru gerðar til hæfis framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða. Bæði er um að ræða kröfur er lúta að trúverðugleika þessara aðila auk krafna um faglegt hæfi viðkomandi, þ.e. að menntun, starfsreynsla og starfsferill viðkomandi sé með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.
Nú rúmu einu og hálfu ári síðar eða frá því FME tók upp ofangreint hæfismat hafa samtals 41 aðili af öllum sviðum fjármálamarkaðarins verið teknir í hæfismat. Af þeim 40 sem farið hafa í gegnum matið hafa um 20% fallið í fyrstu tilraun, engin hefur enn fallið í annarri tilraun. Ekki er gert ráð fyrir fleiri en tveimur tilraunum að jafnaði.
Styrkur fyrir fjármálakerfið
,,Hæfismatið hefur mælst vel fyrir hjá þeim framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja sem hafa þreytt það”, segir Guðbjörg Bjarnadóttir, sviðstjóri á lánamarkaðssviði FME. ,,Um er að ræða einskonar munnlegt próf sem varir í 3-4 tíma. Í hæfismatinu eru rædd tiltekin ákvæði laga og reglna sem nauðsynlegt er að framkvæmdastjórinn þekki og ýmis önnur atriði er varða umgjörð fjármálamarkaðarins. Telji FME að viðkomandi hafi ekki sýnt fram á næga þekkingu á lögum og reglum er viðkomandi gefin kostur á að endurtaka matið.
Guðbjörg segir að hæfismatið hafi vakið mikla athygli meðal þeirra fjölmörgu erlendu aðila sem heimsótt hafa FME á undanförnum mánuðum. Hún segir framkvæmd hæfismatsins auki tvímælalaust trúverðugleika fjármálamarkaðarins gagnvart erlendum aðilum og styrki umgjörð hans. ,,Þessir aðilar undrast gjarnan þær tíðu breytingar sem verða á íslenskum fjármálamarkaði. Í því sambandi er það mikill styrkur fyrir íslenska fjármálakerfið að stór hluti framkvæmdastjóra á fjármálamarkaði hafi einmitt farið í gegnum hæfismat FME.
Guðbjörg segir að þeir framkvæmdastjórar sem hafi verið metnir hingað til hafi nær undantekningalaust lýst ánægju sinni með þetta verklag FME, þar sem þeir hafi fengið gott tækifæri til þess að setja sig vel inn í það regluverk sem gildir um starfsemi fyrirtækjanna sem þeir starfa fyrir - það kemur þeim til góða í krefjandi starfi og því flókna lagaumhverfi sem þeir starfa í.