Þann 5. maí sl. veitti Fjármálaeftirlitið Tryggingamiðstöðinni hf. heimild til þess að kaupa Íslenska endurtryggingu hf. Framgreind heimild er veitt með vísan til 39. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi. Fyrir kaupin átti Tryggingamiðstöðin hf. 36.02% af heildarhlutafé Íslenskrar endurtryggingar hf. en á nú félagið í heild.
Starfsemi Íslenskrar endurtryggingar hf. hefur frá árinu 2000 einskorðast við að gera upp eldri endurtryggingasamninga. Í ljósi þessarar stöðu varð það nýverið að samkomulagi að helstu eigendur félagsins myndu gera tilboð í aðra eignarhluti í félaginu. Boði Tryggingamiðstöðvarinnar hf. var tekið. Auk Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og tíu annarra aðila áttu Vátryggingafélag Íslands hf. og Sjóvá Almennar tryggingar hf. eignarhlut í félaginu.