Þann 28. apríl sl. hélt Fjármálaeftirlitið kynningarfund fyrir regluverði færeyskra útgefenda fjármálagerninga. Um var að ræða sambærilegan kynningarfund og haldinn var fyrir regluverði íslenskra útgefenda í nóvember sl. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkur fundur er haldinn fyrir færeyska regluverði.
Tilgangur fundarins var að fræða regluverði um helstu atriði sem lúta að regluvörslu og upp geta komið í störfum þeirra. Jafnframt var hvatt til fyrirbyggjandi aðgerða með því að gera verkferla til þess að minnka líkur á brotum á innherjareglum. Á fundinum var m.a. fjallað um skilgreiningar á innherjum, framkvæmd viðskipta innherja, meðferð og frestun innherjaupplýsinga, gerð og viðhald innherjalista og viðurlög við brotum á reglum um innherjaviðskipti. Jafnframt var fjallað um upplýsingaskyldu útgefenda fjármálagerninga, markaðsmisnotkun og viðurlög tengd því.
Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á góð og jákvæð samskipti við regluverði útgefenda fjármálagerninga og var fundurinn þáttur í því að styrkja þau samskipti.
Kynningar af fundinum:
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is , s. 525 2700 eða gsm 840 3861.