Opnun verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags SPRON hf. 12. júní 2009
Bráðabirgðastjórn SPRON hefur gert samning við Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf., Strandgötu 3, Akureyri um að taka yfir rekstur og umsýslu þeirra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem áður voru í rekstri Rekstrarfélags SPRON hf. Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að það hafi tekið yfir rekstur sjóðanna og að viðskipti með sjóðina hefjist í dag, 12. júní 2009.
Fyrri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sem tekin var með vísan til 3. mgr. 27. gr. og 3. mgr. 53. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, um að fresta tímabundið innlausnum allra verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags SPRON hf., frá kl. 9.00 mánudaginn 23. mars 2009, er því numin úr gildi. Innlausnir í þeim sjóðum sem áður voru í rekstri Rekstrarfélags SPRON geta því hafist kl. 10:00 í dag, föstudaginn 12. júní.
Ákvörðunin nær til eftirtalinna sjóða:
Áskriftarsjóður ríkisverðbréfa
Íslenskur hlutabréfasjóður
Stýrður hlutabréfasjóður
Alþjóðlegur hlutabréfasjóður
BRIK hlutabréfasjóður
Aðrir sjóðir sem voru í rekstri Rekstrarfélags SPRON hf., Skuldabréfasjóður Stuttur og Skuldabréfasjóður Langur, eru í slitaferli og verður greitt úr þeim í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á reglum sjóðanna.
Hlutdeildarskírteinishafar geta fengið nánari upplýsingar hjá Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. og á vefslóðinni: https://www.iv.is/is/sjodir
Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, s. 525-2700 eða gsm: 840-3861.