Meginmál

Athugasemd við frétt Fréttablaðsins

ATH: Þessi grein er frá 12. apríl 2011 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Fjármálaeftirlitið vill gera athugasemd við frétt Fréttablaðsins í dag um málefni Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Af fréttinni má skilja að Fjármálaeftirlitinu beri að mati Umboðsmanns Alþingis að veita Ingólfi aðgang að gögnum er varða rannsókn mála sem send hafa verið til Sérstaks saksóknara. Hið rétta er að Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd við á hvaða grunni  Fjármálaeftirlitið synjaði Ingólfi um gögnin og benti raunar á lagagreinar sem ættu betur við í þessu tilviki.

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis var því ekki sú að Fjármálaeftirlitinu bæri að afhenda gögnin heldur að Fjármálaeftirlitið skyldi leggja mat á upplýsingarétt með hliðsjón af öðrum réttarreglum en gert var í fyrri bréfum til Ingólfs.

Fjármálaeftirlitið vekur enn fremur athygli á því að í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að embætti Sérstaks saksóknara hafði sagt í bréfi til Fjármálaeftirlitsins að það stæði rannsóknarhagsmunum þessara mála í vegi yrði Ingólfi veittur aðgangur að gögnum þeirra.